Húsavík – bílalest á leið norður

Þessar einingar stefna norður í land.  Myndir Framsýn
Þessar einingar stefna norður í land. Myndir Framsýn

Eins og áður hefur komið fram á heimasíðu stéttarfélaganna hefur Bjarg íbúðafélag unnið að því að byggja sex íbúða raðhús að Lyngholti 42-52 á Húsavík. Grunnurinn er klár og á næstu dögum mun bílalest leggja af stað frá Selfossi með einingarnar til Húsavíkur enda haldist veðrið áfram í lagi.

Húsboxin eru 12 talsins, að utan eru þau að mestu klár og að innan er búið að parketleggja að stórum hluta og verið að setja upp innréttingar og klára baðherbergin. Gangi allt eftir verða íbúðirnar tilbúnar til afhendingar með vorinu,

Framsýn hefur reyndar ekki fengið það staðfest endanlega en fulltrúar frá Bjargi eru væntanlegir norður á næstu vikum til að ganga frá samningum við þá sem þegar hafa fengið úthlutað þessum íbúðum. Rúmlega 40 umsækjendur voru um þessar sex íbúðir. Greinilegt er að mikil þörf er fyrir frekari uppbyggingu á Húsavík sem Framsýn mun fylgja eftir í góðu samstafi við Norðurþing og Bjarg.

4ra herbergja íbúðir

Um er að ræða sérbýli með litlum garði og allar íbúðir með tveimur bílastæðum. Allar íbúðirnar eru 4ra herbergja (3 svefnherbergi). Íbúðirnar eru ætlaðar fyrir félagsmenn Framsýnar, Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur sem eru á leigumarkaði og standast þær reglur sem gilda um úthlutun íbúðanna. Þá hafa félagsmenn innan aðildarfélaga ASÍ og BSRB sem búa utan félagssvæðið stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum einnig aðgengi að íbúðunum. Full ástæða er til að fagna þessum áfanga. Norðurþing kemur að þessu verkefni með Bjargi íbúðafélagi. Hægt að lesa frekar um starfsemi Bjargs íbúðafélags á heimasíðu félagsins: https://www.bjargibudafelag.is/.

Vonandi í notkun í sumarbyrjun

Bjarg er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norrænni fyrirmynd, „Almene boliger“. Fyrstu íbúðir voru afhentar leigutökum í júní 2019 á höfuðborgarsvæðinu. Framsýn hefur lengi barist fyrir því að Bjarg komi að því að byggja leiguhúsnæði fyrir tekjulága á Húsavík og víðar á félagssvæðinu enda sé grundvöllur fyrir því. Það er í fullu samstarfi við sveitarfélögin og verkalýðsfélögin í Þingeyjarsýslum. Það verður því afskaplega gleðilegt þegar nýju íbúðirnar verða teknar í notkun síðar á árinu, vonandi í sumarbyrjun.

Grunnurinn er klár í Lyngholti 42-52 á Húsavík. Um næstu mánaðamót rís hér sex íbúða raðhús sem er mikið gleðiefni. Einingarnar eru klárar eins og meðfylgjandi myndir bera með sér en þær eru smíðaðar á Selfossi.

 

 

 

Það er  á framsýn.is sem fyrst var sagt frá þessu

 

Nýjast