Íslensk ferðaþjónusta – villta vestrið

Átta þúsund störf hafa skapast við aukna ferðaþjónustu hérlendis á síðustu fimm árum. Þessi stórauknu umsvif eru megin drifkraftur hagvaxtar, megin ástæða þess að ríkissjóður nýtur vaxandi skatttekna. Atvinnuleysi er jafnframt í lágmarki en því miður hefur hinu opinbera ekki tekist að spila nógu vel úr tækifærinu. Ekkert hefur gengið að móta stefnu um uppbyggingu og styrkingu innviða svo hægt verði með sjálfbærum og sómasamlegum hætti að taka á móti tveimur milljónum ferðamanna á næstu árum.

Nú kann einhver að benda á að það sem hreki fullyrðinguna hér að ofan að búið sé að koma á fót sérstakri Stjórnstöð ferðamála og gefa út Vegvísi í ferðaþjónustu (2015). En í vegvísinum er fátt að finna sem varðar veginn. Spár um að tekjur af ferðaþjónustu verði orðnar 1.000 milljarðar á árinu 2020 eru helsta vísbending um opinbera stefnu. Úr Stjórnstöð ferðamála hafa einkum borist fregnir af ráðningu framkvæmdastjóra án auglýsingar þrátt fyrir lagaákvæði sem kveða á um að öll opinber störf skuli auglýst. Það tók tæpt ár að ráða nýjan framkvæmdastjóra og stjórnstöðin virðist skjöldur fyrir ríkisvaldið sem ætlað er að fela ónóga stefnumótun og vanbúnar áætlanir ráðherra.

Verðsprenging á leigumarkaði

Síaukinn ferðamannastraumur hingað til lands hefur víðtæk áhrif á samfélagið okkar. Skapast hefur skortur á leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem og nálægt vinsælum áfangastöðum ferðamanna. Margir velja að leigja húsnæði sitt til fremur til ferðamanna en íbúa sem hefur leitt til verðsprengingar á leigumarkaði sem einkum ungt fólk ræður ekki við. Ungt fólk getur raunar ekki heldur keypt sér eign í því ástandi sem við búum við en það er önnur saga. Nokkur sveitarfélög vilja vinda ofan af þessari þróun og vernda byggð til handa íbúum. Leysa þarf vandann með aukinni uppbyggingu á leiguhúsnæði.

Álag á innviði

Ferðamannastraumurinn veldur að auki miklu álagi á vegakerfið. Um helmingur ferðamanna nýtir sér bílaleigubíla. Fimmtungur af allri umferð í landinu eru ferðamenn. Þeim eru svo sannarlega ekki allir vegir færir, enda er viðvarandi skortur á viðhaldi og þjónustu á vegum landsins. Engin áform virðast um að setja nægilegt fjármagn í öll verkefnin þótt þörfin sé augljós.

Það er einnig ljóst að við þurfum fjölbreytt og vel menntað vinnuafl til að halda úti öflugri starfsemi og góðu þjónustustigi í ferðaþjónustu. Hins vegar er óljóst hvert á að sækja það vinnuafl, því nú þegar er hafinn flótti úr öðrum atvinnugreinum yfir í ferðamannageirann og veldur ýmsum vandræðum.

Ónóg virðing gagnvart fjöregginu

Þá verður að minnast á að á sama tíma og við seljum landið okkar sem hreina náttúruparadís, sjálft fjöregg ferðaþjónustunnar, verður að viðurkennast að við berum alls ekki næga virðingu fyrir náttúruauðlindinni. Við ýtum til hliðar þeim áhrifum sem fjölgun ferðamanna hefur á náttúruna og þá ekki síst hin ósnortnu víðerni. Á að stýra og takmarka aðgengi að vissum stöðum með fjöldatakmörkunum, lokunum eða aðgangseyri? Þetta þarf að meta í hverju tilfelli og á hverjum stað fyrir sig. Án verndunar og mótvægisaðgerða missir náttúran okkar smátt og smátt þann sess að vera eftirsóknarverður áfangastaður. Er þess þá ógetið hvers konar vítamínsprauta óröskuð náttúra Íslands er okkur íbúum landsins allan ársins hring.

Á slóðum villta vestursins

Eins og horfir nú stefnir í mikla aukningu flugferða hingað til lands næsta ár. Ferðamenn munu halda áfram að streyma hingað, hvort sem hér verður rekin ferðamannastefna eða hver sem hún verður. Aukning er ekki slæm í sjálfri sér en ef opinberir aðilar móta ekki stefnu um hvernig skuli bregðast við vextinum stefnum við í ástand sem e.t.v. mætti helst líkja við Villta vestrið. Með því mun okkur ekki auðnast að standa undir væntingum gesta, hvað þá hámarka gæði og tekjur fyrirtækja í ferðaþjónustu. Lífsgæði okkar Íslendinga eru einnig undir.

Dreifing ferðamanna mikilvæg

Það þarf nú þegar að móta heildarstefnu. Móta stefnu þvert á ráðuneyti með þátttöku helstu hagsmunaaðila. Það þarf að tengja innanlandsflug og millilandaflug þannig að ferðamenn hafi val um að fljúga til dreifbýlli landshluta um leið og þeir koma til landsins. Það þarf líka að opna fleiri beinar gáttir til Íslands. Með beinu alþjóðaflugi inn á Egilsstaði og Akureyri myndi álag af völdum ferðamanna jafnast. Þolinmótt fjármagn er lykilatriði í þessu samhengi. Búið var að verja mörgum milljörðum í markaðsstarf fyrir Keflavík áður en flug þangað fóru að skila hagnaði. Gleymum ekki heldur hve langan tíma það tók að gera Keflavíkurflugvöll að arðbærum við- komustað. Einnig er mikilvægt að byggja upp ferðamannastaði, vernda viðkvæmar náttúruperlur með aðgangsstýringu. Bæta vegakerfið og bæta upplifun þeirra sem heimsækja okkur. Það gengur ekki lengur að hrúga öllum saman á sömu viðkomustaðina.

Við þurfum líka að finna út hvernig við ætlum að manna þau störf sem enn munu skapast í ferðaþjónustu á næstu misserum.Við þurfum að forgangsraða opinberum framkvæmdum til að skapa hvorki þenslu, verðbólgu sé launaskrið. Með því bætum við lífsgæði okkar heimamanna. Heilbrigð uppbygging getur víða um land orðið hryggjarstykkið í nýrri sókn í dreifbýli.

Björt framtíð mun beita sér

Ferðaþjónusta hefur fjölgað atvinnutækifærum í byggðum landsins en getur gert betur með fleiri störfum á heilsársgrundvelli óháð staðsetningu, þökk sé tækni og tölvutengingum. Áhersla á aukna menntun og aukin gæði í ferðaþjónustu hlýtur að vera keppikefli Þannig aukum við líkur á að okkar góðu gestir fari ánægðir til baka að lokinni heimsókn. Þessi uppbygging, þessi framtíðarsýn er í hópi helstu verkefna sem Björt framtíð vill beita sér fyrir að verði tekin sterkum tökum strax. Til þess þurfum við brautargengi í komandi kosningum.

Höfundur er mjólkurtæknifræðingur og skipar 1. sæti á lista Bjartrar framtíðar í NA kjördæmi.

Nýjast