Grábrók.

Sér upp Norðurárdalinn. Hraunsnefsöxl t.v. , Baula og Litla-Baula fjær.
Sér upp Norðurárdalinn. Hraunsnefsöxl t.v. , Baula og Litla-Baula fjær.

 Að keyra á milli Akureyrar og Reykajvikur finnst mörgum langt og leiðinlegt.  En það breytir því ekki að mörg okkar keyra þessa leið nokkrum sinnum á hverju ári.  Hér er ég með uppástungu til að gera þetta að skemmtilegu ferðalagi.

Næst þegar þið eigið leið til Reykjavikur legg ég til að áður en þið farið af stað smyrjið þið ykkur brauð , hitið kakó og hafið með í nesti.  Svona smá fortíðar upplifun.  

Vegasjoppur eru til margs góðs , en þetta getur verið öðruvísi.

Eftir svo sem tveggja tíma akstur ættuð þið að vera komin í Vatnsdal í Húnavatnssýslu. Við afleggjaran út að Þingeyrarkirkju er góður áningastaður við skógarlund sem heitir Ólafslundur. Þar er gott að grípa upp nestið og fá sér smurt og kakó. Hægt er að rétta úr sér hér og ganga um lundinn, en ágætisgöngustígar eru þar. Þarna eru líka salerni sem hægt er að nýta sér.

 Svo er haldið áfram , alla leið að í Borgarfjörð,  að Grábrók sem er rétt ofan við Bifröst . Gott er að stoppa þar og liðka sig með því að ganga á fjallið. Þetta er ekki erfið ganga, manngerðar tröppur megnið af leiðinni.  Hækkunin er um 70 metrar, þetta er svona svipað eins og að ganga kirkjutröppurnar 4-5 ferðir. Þegar upp er komið er hægt að ganga í kringum gýginn sem er í miðri Grábrók.

Það er fagurt að líta í kringum sig, til dæmis að sjá Hreðavatn sunnan við, sem annars sést ekki frá veginum og einnig að sjá yfir dalinn. Ef þið eruð heppin með skyggni sést víða og mörg falleg fjöll sjást, þótt ekki sé farið hærra.  Beint norðan við er Hraunsnefsöxl, brött og hrikaleg.  Hún er um 500 metra yfir sjávarmáli.  Þar norðar sést  Baula, um 900 mys. og Litla-Baula ögn austar. Í mjög góðu skyggni má grilla í tvær Tröllakirkjur. Önnur norður á Holtavörðuheiði um 1000m og hin í vestri  um 900m há. Í suðri er það sjálfsögðu Hafnarfjall og Skarðsheiðin, rúmir 1000m á hæð. Þar á bakvið, aðeins austar , má sjá Botnsúlur ef skyggni er gott. Botnsúlur eru fimm og er hæsti tindurinn tæplega 1100m hár.  Í austri er það að svo Eiríksjökull, sem er hæstur og  tignarlegastur 1675m hár og svo að sjálfsögðu Langjökull.  Þar sunnan við sér maður "fjallið allra hæða val" Skjaldbreið.

 Að ganga upp á Grábrók og niður aftur tekur innan við hálftíma, þannig að þetta tefur mann ekki mikið. Þegar niður er komið er upplagt að klára nestið sitt og drekka restina af kakóinu.  Halda síðan ferðinni áfram og ég get lofað ykkur því að eftir á finnst ykkur ferðin hafa verið bæði skemmtileg og fljótfarin.

 Gleymið ekki myndavélinni .

Nýjast