Býður þú alheiminum með þér upp í sófa á kvöldin?

Inga Hildur Jóhannsdóttir
Inga Hildur Jóhannsdóttir

Lífið í nútímanum veltur sífellt meira á utanaðkomandi þáttum. Upplýsingaflæðið umlykur allt sem við gerum hvort sem það er í vinnu, skóla eða í frítíma. Við réttlætum stöðuga nálægð og viðveru í snjalltækjum þannig að hægt sé að ná í okkur öllum stundum „það verður að vera hægt að ná í mig ef eitthvað skyldi koma upp á,“ heyrist gjarnan. Margir eru smeykir við að missa af símtali, skilaboðum, uppfærslum, viðburðum, afmælisdögum eða að láta fréttir fram hjá sér fara. Kannski er tilfinning fólks í dag sú að það þurfi alltaf að hafa svörin á reiðum höndum og vera á tánum.

 Heimsmyndin hefur breyst töluvert síðustu áratugi og margir álíta sig heppna að hafa upplifað barnæsku og mótunarár án freistinga snjalltækjanna. En það er líka margt gott við þróunina og mikilvægt að geta aðlagast og tekist á við ókosti upplýsingaflæðisins. Kostir við þessa þróun eru svo sannarlega til staðar: Við getum auðveldlega verið í sambandi við vini og ættingja, fólk getur stofnað hópa á samfélagsmiðlum tengt áhugamálum og tengst öðrum með álíka áhugamál án þess að hittast í persónu, fjarfundir og fjarviðtöl gera fólki kleift að búa á landsbyggðinni en sækja þjónustu í öðru bæjarfélagi. Eins getur fólk verið í fjarvinnu og jafnvel ferðast með vinnuna með sér og nemendur sótt fjarnám hjá þeim skólum sem bjóða upp á slíkt.

 En við höfum flest orðið vör við neikvæð áhrif upplýsinganna sem birtast á samfélagsmiðlum og fréttaveitum. Instagram, Facebook og X (áður Twitter) ásamt fleiri þekktir miðlar birta okkur fréttir, myndir og efni. Ekki bara frá þeim sem við kjósum sem vini okkar inni á þessum miðlum heldur einnig efni sem við viljum ekki sjá, kemur okkur ekki við eða getur beinlínis verið skaðlegt okkar heilsu og sjálfsmynd. Í þessu samhengi geta það verið deilingar af stríðsfréttum út í heimi, ógeðfelldar fréttir af brotum einstaklinga eða glansmyndir af vinum eða samfélagsmiðlastjörnum sem við þekkjum ekki persónulega. Ekki má heldur gleyma algorithma netsinssem sýnir okkur efni sem ætlað er að hvetja okkur til kaupa á vörum eða efni sem við þurfum ekki endilega.

 Hluti af þessari vitundarvakningu er að við leyfum okkur að skoða neyslu okkar á samfélagsmiðlum á gagnrýninn hátt og út frá okkar þörfum. Við þurfum að vera óhrædd við að ákveða að hvíla okkur á fréttaflæðinu þó það þýði að við getum ekki verið með á nótunum á kaffistofunni. Eins með að fylgja ekki áhrifavöldum til að forðast samanburð og einblína á eigin þarfir og langanir án áhrifa. Stríðsátök hafa til dæmis verið mikið í fréttum undanfarið og þó við veljum að hvíla okkur á þeim fréttum í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum þá erum við á engan hátt að segja að við séum fylgjandi ofbeldinu sem er að eiga sér stað. Gott er að hafa í huga að efni af þessu tagi getur komið miklu róti á huga margra og þarf hver og einn að taka ákvörðun fyrir sig hvort hann/hún/hán fylgist með þessu fréttaefni.

 Ef þú ert að velta fyrir þér hvaða áhrif þín miðlanotkun hefur þá hvet ég þig til að spyrja þig þessara spurninga:

  • Hvað vil ég fá út úr notkun samfélagsmiðla og fréttamiðla?
  • Hvernig líður mér eftir notkun þessara miðla?
  • Hvernig fyrirmynd vil ég vera sem notandi þessara miðla?

 Við þurfum öll að vera meðvituð um áhrif þessara miðla á okkur því merkin geta verið lúmsk. Að vera opin fyrir stöðugu áreiti og alltaf til taks er þreytandi og of mikið af upplýsingum sem ýta undir samanburð er líklegt til að hafa áhrif á líðan okkar og sjálfsmynd. Það er ástæða fyrir því að fólk lokar útidyrahurðinni heima hjá sér eftir vinnudaginn, við þurfum hvíld frá amstri daglegs lífs og samskiptum. Einkalífið er vanmetið og dýrmætt og ber að hlúa að því. Af hverju erum við þá að bjóða upplýsingaflóðinu og öllu meðfylgjandi með okkur upp í sófa á kvöldin?

 

Inga Hildur Jóhannsdóttir er með B.A. gráðu í fjölmiðlafræði og starfar sem ritari með vefumsjón hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni.

Nýjast