Viðtalið - Sóley Björk Stefánsdóttir verkefnastjóri hjá Eyjafjarðardeild Rauða Krossins

Ekkert vandamál er of lítið eða stórt fyrir Hjálparsímann 1717 eða netspjall Rauða krossins.
Ekkert vandamál er of lítið eða stórt fyrir Hjálparsímann 1717 eða netspjall Rauða krossins.

„Við stefnum að því að fjölga sjálfboðaliðum sem starfa við Hjálparsímann 1717 hér fyrir norðan,“ segir Sóley Björk Stefánsdóttir verkefnastjóri hjá Eyjafjarðardeild Rauða Krossins á Akureyri. Alls starfa um þessar mundir 8 sjálfboðaliðar á starfsstöð Hjálparsímans á Akureyri.

Verkefni Hjálparsímans er stýrt frá landsskrifstofu Rauða krossins en verkefnastjóri á Akureyri aðstoðar við öflun og utanumhald sjálfboðaliða. Reyndur sjálfboðaliði hefur tekið að sér hlutverk hópstjóra norðan heiða og sér um þjálfun nýrra sjálfboðaliða. Um einstaklingsþjálfun er að ræða og því styttist biðtími frá því sem áður var, frá því sótt er um og þar til sjálfboðaliðinn getur hafið störf.

Krefjandi verkefni

Sóley Björk segir að um sá að ræða krefjandi verkefni og það sé alls ekki á allra færi að sinna því. Góð þjálfun sé undirstaða þess að vel gangi. Ekki eru gerðar sérstakar menntunarkröfur, en öll menntun kemur sér þó vel sem og einnig almenn þekking og reynsla. „Það getur tekið mjög á að taka við símtölum frá fólk sem upplifir mikla vanlíðan. Við kappkostum því að ráða inn fólk sem veldur verkefninu, er sjálft í jafnvægi og býr yfir ákveðinni reynslu og þekkingu á þeim málefnum sem oftast ber á góma,“ segir hún. Sem dæmi er ekki gott að sjálfboðaliðinn sé sjálfur að vinna úr áföllum eða erfiðleikum í sínu lífi.

Almennt er aldurstakmark til að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum 18 ár, en 23 ár hjá Hjálparsímanum. „Við höfum sem betur fer á að skipa reynslumiklum sjálfboðaliðum á ýmsum aldri sem eru vel þjálfaðir til að svara þeim símtölum sem berast. En það er alltaf hægt að bæta við og við erum í þeirri vegferð um þessar mundir,“ segir Sóley Björk.

Sóley Björk Stefánsdóttir verkefnastjóri hjá Eyjafjarðardeild Rauða Krossins 

Flestir fá aðstoð vegna kvíða

Alls berast yfir 20 þúsund erindi til 1717 á ári og eru þau jafn ólík og þau eru mörg, þau snúast um það sem hverjum og einum liggur á hjarta hverju sinni. Fólk leitar eftir stuðningi, ráðgjöf, stundum bara að fá einhvern til að tala við og hlusta og þá vantar suma upplýsingar um úrræði sem standa til boða hér á landi. Allir aldurshópar leita til hjálparsímans en svarað er jöfnum höndum í síma og á netspjalli. Eldra fólk hefur mest samband í síma en yngra fólkið nýtir sér frekar netspjallið.

Sóley Björk segir að flest símtalanna snúist um kvíða, þar á eftir koma samtöl frá fólki með sjálfsvígshugsanir og þunglyndi er í þriðja algengasta umræðuefnið. „Það er margir að glíma við vanlíðan af ýmsu tagi, einmanaleiki er áberandi, þunglyndi, kvíði, sjálfsvígshugsanir, sjálfsskaði eru oft til umræðu, sorg og áföll af margvíslegu tagi. Sumir hafa áhyggjur af húsnæðismálum, aðrir af atvinnuleysi, ofbeldi af öllu tagi ber á góma í símtölum til Hjálparsímans, einelti og heilbrigðisvandi líka.“

Margir einmana

Sóley Björk segir það verulega krefjandi verkefni að svara í Hjálparsímann, eðli samtalanna er oft þannig að verið er að taka á erfðum og viðkæmum málum. Oft sé verið að ræða við fólk sem líður mjög illa. Inn á milli koma léttari símtöl frá fólk sem hringir til að spjalla. „Við eigum okkar fasta símavini sem hringja reglulega í okkur. Það er því miður mikið af einmana fólki úti í okkar samfélagi og það nær margt hvert að rjúfa sína einangrun með spjalli við sjálfsboðaliða okkar. Það er alltaf gott að geta komið að gagni og við heyrum það á okkar skjólstæðingum að þeir eru lang flestir ánægðir með þær viðtökur sem þeir fá,“ segir hún.

Gott að hafa starfsstöðvar á fleiri en einum stað

Rauði Krossinn hefur starfrækt starfsstöð Hjálparsímans á Akureyri um nokkurra ára skeið og hefur hug á að efla starfsemina með því að hafa fleiri sjálfboðaliða til taks. „Það er mikilvægt öryggisatriði að hafa starfsstöð á tveimur stöðum á landinu því það getur alltaf eitthvað farið úrskeiðis og ef rafmagn fer af annarri starfsstöðinni getur hin tekið við.

Nýjast