Rekstrarhagnaður samstæðu Norðurorku var 782 milljónir króna eftir skatta

Rekstrarhagnaður samstæðu Norðurorku var 782 milljónir króna eftir skatta   Myndir no.is
Rekstrarhagnaður samstæðu Norðurorku var 782 milljónir króna eftir skatta Myndir no.is

„Á árinu 2024 var, líkt og síðustu ár þar á undan, mikið lagt í jarðhitaleit og rannsóknir með það að markmiði að mæta aukinni og hratt vaxandi þörf fyrir heitt vatn á starfssvæði Norðurorku. Á undanförnum árum hefur Norðurorka aukið umtalsvert við fjármagn til rannsókna, þróunar og nýsköpunar og er ekki vanþörf á. Rannsóknarholur voru boraðar á Ytri Haga á árinu og lokið við að staðsetja vinnsluholu. Boranir munu hefjast þar sumarið 2025 og stefnt að því að ný hola verði tekin í notkun 2026,“ sagði Eyþór Björnsson forstjóri Norðurorku í ávarpi sínu á ársfundinum.

Eyþór Björnsson forstjóri Norðurorku 

Eyþór sagði ljóst að fjárfestingarþörf verður áfram mikil á næstu árum. „Áfram erum við að glíma við þá staðreynd að veltufé frá rekstri stendur ekki undir fjárfestingum og því þarf Norðurorka að brúa bilið með lánsfé. En við sjáum batamerki í rekstrinum og staðan til lengri tíma litið er jákvæð. Höfum það í huga að Norðurorka er öflugt fyrirtæki sem stendur styrkum fótum með sterka eiginfjárstöðu. Það er engin ástæða til að örvænta þrátt fyrir krefjandi úrlausnarefni sem við okkur blasir, það að snúa þróuninni við svo tekjur veitnanna standi undir fjárfestingum.

Brúa bilið með lánsfé

Fram kom að rekstur samstæðunnar gekk vel á árinu 2024. Rekstrarhagnaður hennar var 782 milljónir króna eftir skatta. Fjárfestingar voru 2.141 milljón króna og jukust um 38 milljónir frá fyrra ári. Líkt og fyrri ár var nokkuð um að verkefni flyttust milli ára og ný verkefni bættust við. Veltufé frá rekstri er góður mælikvarði á afkomu og þar með möguleika veitnanna á að fjármagna framkvæmdir með eigin fé. Veltufé frá rekstri var 1.853 milljónir króna á árinu 2024 og lækkaði um níu milljónir frá fyrra ári. Miðað við fjárfestingar upp á ríflega 2,1 milljarð þá vantar 288 milljónir til þess að veltufé frá rekstri standi undir fjárfestingum. Það bil, og meira til, þarf að brúa með lánsfé.

Nýjast