,,Ætlum að búa til fallega samverustund"

Einar Óli Ólafsson tónlistarmaður frá Húsavík stóð í stórræðum á síðasta ári þegar hann setti tónlistarhátíðina Hnoðra á laggirnar í heimabæ sínum. Hann hafði verið kjörinn listamaður Norðurþings en hátíðin var hluti af samstafi hans við sveitarfélagið vegna útnefningarinnar. Nú skal leikurinn endurtekinn.
Hátíðin þótti takast afskaplega vel og segir Einar í samtali við Vikublaðið að viðtökurnar hafi farið fram úr björtustu vonum og því aldrei annað komið til greina en að endurtaka leikinn í ár.
„Í fyrra fengum við til okkar mjög svo fjölbreytta listamenn og hljómsveitir og voru atriðin níu talsins. Kvöldið gekk eins og í sögu og úr varð ótrúlega falleg stund sem yfir 500 manns nutu góðs af,“ segir Einar og bætir við að það sé ótrúlega gott að búa á Húsavík en undanfarin ár hafi aðeins vantað upp á fjölbreytileikann á veturna.
Vill auka fjölbreytni yfir veturinn
„Sumir veitingastaðir og stofnanir t.d. stytta opnunartímann eða jafnvel loka í nokkra mánuði og opna ekki fyrr en túristinn fer að mæta. Mín von er sú að á næstu árum verðum við farin að laða að fólk hingað um páska og að veitingastaðir og önnur fyrirtæki njóti góðs af því,“ segir Einar en Hnoðri fer fram í húsakynnum Ísfells, netagerðar laugardaginn 19. apríl.
Hnoðir kominn til að vera
Einar lýsir Hnoðra sem skemmtilegri tónlistarhátíð sem fæddist á Húsavík um síðustu páska og það sé von hans og trú að tónlistahátíðin verði að fastri venju í menningarlífinu í bænum. „Hnoðri er ekkert svo ólíkt Aldrei fór ég suður fyrir vestan, þó við séum ekki orðin eins stór og þau. Við erum að tala um fjölskylduhátíð sem er opin öllum sem vilja koma og heyra nýja íslenska tónlist. Hátíðin er rekin áfram á fyrirtækjastyrkjum og er ekki rekin í hagnaðarskyni. Við sem komum að þessu gerum þetta í sjálfboðavinnu og leggjum við upp með því að alltaf sé frítt að koma og hlusta,“ útskýrir Einar og bætir við að hugsunin sé einnig að á hverju ári sé fyrirtækjum í bænum boðið að vera með sölubás og selja varning eða mat fyrir eigin ávinning.
Handverk og veitingar frá nærsvæðinu
„Í ár verða með okkur Kaðlín handverkshús og ætla að selja lopapeysur og bjórvettlinga, Golfskálinn ætlar að selja pinnamat eða súpu, Húsavík Öl brugghús selur bjór og svo verðum við sem erum í stjórninni með bás sem selur heitt kakó og kökur fyrir krakkana,“ segir Einar og bætir við að megin markmiðið sé að skapa góðan vettvang fyrir fjölbreytta listamenn á Norðurlandi til að koma fram á þessum tíma árs.
„Við leggjum áherslu á vera alltaf með einhverja upprennandi listamenn hér á Norðurlandi og erum óhrædd við að fara óhefðbundnar leiðir þegar við veljum listamenn en aðal markmiðið er að sjálfsögðu að búa til fallega samverustund með íbúum bæjarins og gestum.
Staðfestir listamenn á Hnoðra 2025 eru:
Axel Flóvent
Guðný
Diana Sus
Draugar
Einar Óli
Rown (Hljómsveit frá Laugum sem fór í úrslit Músíktilrauna).
Rými til vaxtar
Einar fer ekki leynt með að hann sé orðinn spenntur fyrir Hnoðra ársins enda farið að styttast í veisluna. Hann segist fullviss um að hátíðin sé búin að festa sig í sessi og muni bara stækka þegar fram líða stundir. „Við ætlum að halda áfram að byggja ofan á hátíðina og stefnan er sett á að hátíðin verði tvö kvöld í framtíðinni,“ segir Einar Óli að lokum.
Myndtextar:
Einar Óli Ólafsson, tónlistarmaður og framkvæmdastjóri Hnoðra. Myndir/aðsendar.
Dúettin Jónas Þór og Arnþór tróðu upp á Hnoðra 2024.
Hljómsveitin Tonnatak var grjóthörð í fyrra.