150 tonn af fatnaði send úr landi

Á árinu 2024 voru sendir úr landi frá Eyjafirði alls fjórtán 40-feta gámar, sem samsvarar 150 tonnum af fatnaði. Það sem ekki er nýtt til sölu innanlands er sent úr landi til endurvinnslu. Útflutningur var minni en á árinu 2023, sem nemur einum gámi.

Bjarg/Iðjulundur, verndaður vinnustaður á Akureyri, fær bómullarefni úr fatasöfnuninni til að framleiða olíuklúta. Töluverð aukning varð á árinu á fatasendingum til Rauðakrossdeilda utan Eyjafjarðar. Sendingar fóru til Húsavíkur, Þórshafnar, Sauðárkróks, Búðardals, Borgarness, Suðurnesja, Blönduóss og Búðardals. Þetta kemur fram í ársskýslu Eyjafjarðardeildar Rauða krossins.

Sjálfboðaliðar burðarbitar

Sjálfboðaliðar sem unnu að fatasöfnun og flokkun voru 33, þar af 22 á Akureyri, 4 á Dalvík, 5 í Ólafsfirði og 2 á Siglufirði.

Samkvæmt nýjum lögum er sveitarfélögum nú skylt að halda úti sérstakri söfnun á textíl. Við lok árs 2024 gerðu Rauði krossinn við Eyjafjörð og Akureyrarbær með sér samkomulag um söfnun, flokkun og sölu á textíl. Um er að ræða fyrsta slíka samkomulagið á landsvísu.

Nýjast