20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Aftur af stað í birtingu
Klukkan er tólf á hádegi. Gangnamenn úr Svarfaðardalshreppi eru komnir fram á fremstu göngur. Einstaka finna orðið aðeins fyrir þreytu enda búnir að vera á ferðinni síðan klukkan fjögur um morguninn, sumir á hestum, aðrir á skíðum þar sem snjó festi snemma þetta haust og nokkrir gangnamenn lausfóta þ.e. fótgangandi. Veturnætur eru skammt undan og öllum ljóst að tími er til kominn að snúa við, því myrkrið er fljótt að grípa mann á þessum árstíma.
Klukkan er átta að kvöldi til. Gangnamenn hafa komið fénu saman við svokallaða Vesturá (sem rennur í Skíðadalsá). Þreytan í mannskapnum er nú töluverð, hlaupin í erfiðri færð inni á eftir fénu hafa tekið sinn toll. Þær eru orðnar yfir 500 talsins, kindurnar sem hefur verið smalað þennan daginn. Þegar hér er komið við sögu brestur á norðan stórhríð og eiga gangnamenn þann einan kost að skilja féð eftir. Við tekur barningur á móti stórhríðinni. Sá sem ekki kemst fljótlega í skjól verður úti.
Klukkan er tvö að nóttu. Hinn tvítugi Aðalsteinn Óskarsson kemur í Kóngsstaði. Þessa nótt nær hann að komast í skjól eins og allir ferðafélagar hans. Þó menn séu nær dauða en lífi er strax farið að huga að því hvernig bjarga megi fénu þegar veðrinu slotar. Það er illt að þurfa að skilja féð eftir og vonast menn til að geta farið af stað í birtingu.
60 árum seinna, sumarið 1996, sit ég við hlið Aðalsteins afa á pallinum við Birkimel, litla bænum hans í Skíðadal. Við okkur blasir Gljúfurárjökull og Kóngstaðalandið. Hann talar fallega um landið sitt, sveitina sína, Kóngsstaðafjölskylduna, hugsar upphátt til baka um það sem dalurinn hefur gefið honum. Ég skynja hversu vænt honum þykir um heimahagana og hversu djúpar rætur hans eru til ættjarðarinnar. Ég verð hugsi, því slíkan fjársjóð á ég ekki.
Nú þegar afi hefur löngu kvatt þennan heim og við fjölskyldan stefnum á að hittast laugardaginn 20. ágúst við Birkimel til að minnast þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu Aðalsteins Óskarssonar frá Kóngsstöðum koma minningar sem þessar upp í huga mér. Sumar eru mínar minningar, aðrar hef ég eignast í gegnum frásögur annarra eða með því að kynna mér skrif afa og viðtöl við hann. Mér verður ljós sé reginmunur á lífi okkar að ég hef aldrei af einhverri alvöru þurft að berjast fyrir tilvist sveitarinnar minnar, bú fénaðarins míns, afkomu fjölskyldunnar minnar. Það er kannski einmitt þess vegna sem ég tek ofan fyrir fólki eins og Aðalsteini afa sem þrátt fyrir erfiðan dag og baráttu upp á líf og dauða halda af stað í dagrenningu næsta dags til að sinna skepnunum sínum.
Það eru forréttindi að geta hugsað til baka, skoðað myndir, dagbækur, blaðaviðtöl og fréttir og uppgötvað fyrir sjálfan sig hversu dýrmæt sú arfleifð er sem gengin kynslóð skilur eftir sig. Í viðtali sem birtist í Degi 1993 var Aðalsteinn spurður hvort að hann væri félagsmálafíkill, en á þeim tímapunkti hafði hann verið formaður Félags eldri borgara á Akureyri í fjögur ár og sat enn í stjórn Landssambands eldri borgara og hafði þar á undan gengt formennsku í landssambandinu í tvö ár. Af svari hans má ljóst vera að félagsstörf voru honum mikilvæg:
„Ég er búinn að vera í félögum síð an ég var tólf ára en þá gekk ég í ungmennafélagið Skíða þegar það var stofnað. Svo fór ég í verkalýðsfélagið á Dalvík og varð þar formaður, um tíma var ég í oddvitastarfinu á Dalvík og loks var ég í framsóknarfélaginu. Þetta er kannski óþarflega mikið fyrir einn mann á lífsleiðinni en maður lærir alltaf eitthvað nýtt á því sem maður tekur sér fyrir hendur.“
Þar með er í mesta lagi hálf sagan sögð, því afi var meðhjálpari, kirkjuvörð ur og safnaðarfulltrúi í 18 ár. Alúðin sem hann lagði í það verkefni er mér enn ljóslifandi í minningunni og ég uppgötvaði ungur að árum að honum þótti mikilvægt að vera heill í því sem hann tæki sér fyrir hendur. Um það vitna orð hans í ofangreindu viðtali, þar sem hann að spurður útskýrir hugmyndina á bak við íbúðirnar í Lindasíðu:
„Minn draumur hefur verið sá frá því ég fór fyrst að hafa afskipti af þessu máli, að við reyndum að byggja þessar íbúðir þannig upp að við þyrftum ekki að láta þá verða útundan sem þyrftu á meiri aðstoð að halda.“
Aðalsteinn Óskarsson lést 13. febrúar 1999. Þegar ég horfi yfir ævistarf hans þykir mér sem að hann hafi oft lagt af stað í birtingu aftur til að takast á hendur við þau verkefni sem gögnuðust samfélaginu öllu. Ég er Drottni mínum þakklátur fyrir þá fyrirmynd sem Aðalsteinn afi var og er mér enn.
Pétur Björgvin Þorsteinsson.