Við hjólum ekki á Akureyri – það eru svo margar brekkur

Fyrir rúmum tveimur árum var skipaður starfshópur á vegum borgarstjórnar Reykjavíkur sem var fengið það hlutverk að útfæra tilraunaverkefni um styttingu vinnudags án launaskerðingar. Í kjölfarið voru tveir vinnustaðir borgarinnar valdir til þátttöku í þessu verkefni. Í sumarbyrjun var svo birt skýrsla um helstu niðurstöður verkefnisins. Það er skemmst frá því að segja að verkefnið tókst að stærstum hluta afar vel. Allir þátttakendur í verkefninu voru sammála því að það hafi skilað sér í meiri starfsánægju og betri starfsanda, auk þess sem dregið hafði úr álagi í starfi.

Kjör og starfsaðstæður kennara

Byrjunarlaun grunn- og leikskólakennara eru í dag rétt ríflega 400.000 kr. á mánuði fyrir fulla vinnu. Á bak við þau laun er 5 ára háskólanám á mastersstigi. Kennari með langan starfsaldur að baki nær kannski að slefa yfir 500.000 kr. í laun á mánuði.

Þetta eru ekki há laun hvernig sem á það er litið. Um það getur varla verið mikill ágreiningur. Kennarastarfið er að mörgu leyti annars eðlis en almennt gengur og gerist. Starfið felur í sér mikil bein og persónuleg samskipti kennara við nemendur með ólíkar þarfir auk þess sem stór hluti starfsins felst í samskiptum við foreldra, aðlögun námsefnis að hverjum og einum nemanda og skipulagi kennslunnar, innra- og ytra mati, samskiptum við ýmsa sérfræðinga og fagfólk utan skólans og margt fleira. Kennarastarfið er því bæði fjölbreytt og mjög krefjandi.

Styttum vinnuviku kennara

Kennarar eru almennt vel menntaðir í sínu fagi enda gerum við kröfu til þeirra um menntun, færni og þekkingu sem nýtist þeim í starfi.

Það er samt þannig að kennarastarfið er illa launað álagsstarf. Það tel ég vera eina af aðal- ástæðunum fyrir því hve fáir sækja í kennaranám og hve margir menntaðir kennarar starfa við annað en kennslu. Laun kennara þurfa að hækka, kjör og starfsaðstæður verða að batna.

Með því að stytta vinnuviku kennara má ná fram nokkrum markmiðum. Í fyrsta lagi eru allar líkur á að það muni hafa jákvæð áhrif á starfsánægju og almenna vellíðan kennara sem líklegt er að skili sér í betra skólastarfi, líðan nemenda og síðast en ekki síst betri menntun.

Við eigum ekki að vera hrædd við breytingar eða að fara nýjar leiðir að sameiginlegum markmiðum. Niðurstaða úr tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar gefur fyrirheit um að við getum með tiltölulega auðveldum hætti bætt skólasamfélagið frá öllum hliðum. Því ekki að láta reyna á styttingu vinnuviku kennara?

Víst hjólum við á Akureyri!

Auðvitað hjólum við á Akureyri þrátt fyrir brekkurnar. Það er fyrir löngu búið að afsanna þá lífseigu kenningu um að erfitt sé að fara leiðar sinnar á hjóli um bæjarfélagið. Það tók áhugafólk um hjólreiðar bara nokkur misseri að sýna fram á að hjólreiðar eru ekkert mál á Akureyri. Þannig er það með svo margt annað. Stundum þarf bara að sýna smá dug og vilja til breytingar.

Höfundur er varaformaður Vinstri grænna, skipar 3. sæti á framboðslista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi.

Nýjast