Verði ljós
Stundum er látið eins og munur á stefnu stjórnmálaflokka sé lítill. Sömu málin komi fram og í aðdraganda kosninga virðist stefnumálin áþekk. Þetta hefur verið mjög áberandi þetta haustið. Heilbrigðismál, velferðarkerfið, menntun fyrir alla, umhverfismál. Og réttindabarátta ýmis konar. Stuðningur við alls konar. Þessar áherslur eru háværar, ekki síst hjá hægri flokkunum.
Eitthvað annað
Í umræðum framboðanna um atvinnumál eru nýsköpun og sprotar töfraorðin ásamt skapandi greinum. Sjálfbær, umhverfisvænn sjávarútvegur og nútímalegur, frjór landbúnaður líka. Umhverfisvæn ferðaþjónusta auðvitað. Og iðnaður á smærri skala. Fyrir þessar kosningar virðist ekki ætla að bera mikið á háðsglósum síðasta áratugar um „eitthvað annað“ Vinstri grænna í atvinnulífinu. Fáir brandarar sagðir um fjallagrös og latté-kaffi. „Eitthvað annað“ er nefnilega orðinn kjarninn í atvinnustefnu allra. Það sem allir vilja.
Úlfar í sauðargæru
Þessi sameiginlegu „mjúku“ áhugamál í aðdraganda kosninga er hins vegar hægt að nálgast með mismunandi hætti. Það er t.d. hægt að sækja fram í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfunum á næsta kjörtímabili með stór átaki í einkavæðingu og einkarestri. Bjóða út sjúkrahúsa- eða sjúkradeildarekstur? Eða framhaldsskóla? Eða fleiri hjúkrunarheimili? Líka hægt að styðja af fullum þunga við réttindabaráttu, en bara rangra hópa. Svo sem gleyma sér í réttindagæslu efnafólks, kvótahafa og stórfyrirtækja. Eða bara vinanna. Og gleyma hverra réttindi raunverulega þarf að verja.
Verði ljós
Í blaðagrein frá uppbyggingartíma eftirstríðsáranna hefði átt prýðilega við að ræða um nauðsyn ljóss og rafmagns í byggðum landsins. Stór hluti dreifðari byggða landsins, þ.á m. Norðausturkjördæmis, býr ennþá árið 2016 við sömu megininnviði að þessu leyti og á eftirstríðsárunum. Einfasa rafmagn sem dugir fyrir flestar brauð ristar en tæplega fyrir atvinnutæki nútímans. Víða bólar lítið á interneti og það þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar um ljósleiðaravæðingu landsins, meira að segja í sjálfu nýjarsávarpi forsætisráðherra (fyrrverandi). Það varð ekkert ljós. Ríkisstjórnarflokkarnir seldu nefnilega grunnnetkerfi byggðanna. Þeir seldu leiðina að eigin markmiðum. Og nú sitja sveitarfélög dreifðra byggða uppi með fullkomlega óljósa stefnu um einhvern einkennilegan bútasaum ljóskapla um landið. Og unnið virðist eftir módelinu þekkta þar sem fjármögnun er á höndum almennings og sveitarfélaga, en eignarhald, rekstur (og arður) í höndum einkaaðila.
Skýr valkostur
Að einhverju leyti er það ágætt í sjálfu sér að áherslurnar flestra séu orðnar býsna mikið grænar, og smávegis vinstri líka. Velferð og heilbrigði og stuðningur við alls konar. En valkostirnir eru ennþá skýrir í raun. Þegar rýnt er nánar ofan í málin er þetta ekki svo flókið sem við erum að fást við: Viljum við að heilsa, velferð og menntun sé arðsemisbisness eða samfélagsþjónusta? Eða dreifing rafmagns, hita, ljóss og nets í byggðum landsins sé á ábyrgð einkafyrirtækja eða í samfélagsins?
Það er hægt að þvælast alls konar millileiðir í þessu. Svar Vinstri grænna er jafnskýrt núna þetta haustið og það hefur alltaf verið. Líka frá því áður en allir hinir flokkarnir fengu ofsalegan áhuga á velferðarmálum og umhverfinu. Og áður en þeir fóru að smíða atvinnustefnu um „eitthvað annað“ (án þess að gera sér grein fyrir því). Hvernig á að borga, kann einhver að spyrja? Svarið er í grunninn einfalt líka: Með jöfnuði í skattkerfinu. Sanngjörnum auðlegðarskatti. Og auðlindarentum af sameignum þjóðarinnar.
Þegar upp er staðið er það eftir þessum meginlínum sem þarf að kjósa 29. október.
Höfundur er sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi og skipar 5. sæti á lista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi.