Þetta er verkefni okkar allra
Ég býð mig fram í 2.–4. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 2016.
Á Íslandi eiga allir að geta haft það gott. Við búum í samfélagi sem einkennist af fámenni, kærleika á raunastundu og óþrjótandi tækifærum. Við höfum byggt upp samfélag sem önnur vilja líkjast. En við viljum öll gera okkar góða land enn betra. Það á að vera verkefni okkar allra, í anda hugsjóna okkar um samvinnu og félagshyggju.
Ég hef verið kennari í rúman áratug. Í starfi mínu hef ég hitt fjölda ólíkra einstaklinga með ólíka sýn á lífið. Lykillinn að jákvæðum breytingum á samfélaginu er að hlúa eins og hægt er að menntun unga fólksins okkar, frá leikskóla til háskóla. Þá gildir einu hvort menn vilja verða hönnuðir, læknar, píparar – eða bændur. Öll störf skipta máli. Virðingu fyrir ólíkum störfum þarf að kenna og tileinka sér. Við þurfum að lyfta undir nýsköpunar- og tæknimenntun. Mér er sérlega hugleikið að hefja verknám til vegs og virðingar.
Til að byggja upp gott menntakerfi og velferðarsamfélag þarf hins vegar fjármuni. Til að skapa fjármuni þarf störf . Grundvöllur þeirra er stöðugleiki. Til að skapa stöðugleika þarf jöfnuð. Öðruvísi náum við ekki jafnvægi með áherslu á heildarhagsmuni umfram sérhagsmuni. Við erum sameiginlega ábyrg fyrir gæfu hvers annars. Það er hin gamla samvinnuhugsjón okkar Framsóknarmanna enda mannlegt samfélag, mannanna verk.
Samgöngur og fjarskipti eru lykilatriði til að tryggja jafnræði óháð búsetu. Einstaklingurinn á að hafa frelsi til að velja hvar hann býr. Við þurfum að skapa innviði sem gera honum það kleift. Hann þarf að komast heim og heiman í krafti góðra samgangna. Hann þarf tengsl við umheiminn um fyrsta flokks fjarskipti.
Sanngjarnt skattkerfi er lykillinn að uppbyggingu innviða sem stuðla að jafnræði og jöfnuði. Skynsamleg nýting auðlinda og orku með komandi kynslóðir í huga hefur alltaf verið eitt af leiðarljósum okkar Framsóknarmanna. Allar ákvarðanir okkar hafa áhrif; einhvers staðar, á einhverjum tíma! Ísland á alþjóðavísu í samfélagi þjóðanna er spennandi viðfangsefni. Við lifum í breyttum heimi á einni Jörð og tækifæri til að miðla af reynslu okkar á sviði tækni, hreinnar matvælaframleiðslu og verndun lands eru einstök. Ég vil að Íslendingar verði í fararbroddi á því sviði.
Hjálmar Bogi Hafliðason, kennari og varaþingmaður.