Þegar konan reynir að skilja... Fótboltahjátrú!
Ég er einn af þessum sem telur sig mjög vel paraðan þ.e. ég er að ganga í gegnum lífið með góða konu mér við hlið. Ég er reyndar kvæntur (við erum reyndar ekkert gift, ég tek bara svona til orða) fleiru en konunni minni. Ég er fársjúkur Liverpoolaðdáandi, og bara til að taka af allan vafa, fyrir þá sem ekki eru vel inni í mikilvægum málefnum þá er ég að tala um fótboltaliðið. Það að halda með stórkostlegu og fornfrægu félagi eins og Liverpool hefur gefið mér margar af bestu stundum lífs míns. Það hefur líka gefið mér súr tár, hártoganir, næstum yfirlið og yfirlið. Það að halda með Liverpool hefur eyðilagt fyrir mér ófáar helgarnar og stundum gert það að verkum að ég hef þurft að taka mér hlé frá samskiptamiðlum (sem er reyndar bara mjög hollt annað veifið).
Það hafa verið niður páraðir ófáir pistlarnir um hvað það er skrítið, asnalegt, nú eða frábært að Íslendingar skuli eyða jafn miklum tíma, orku og tilfinningum í að horfa á ofdekraða stráklinga spila fótbolta á Englandi. Þetta er ekki svoleiðis saga. Þetta er sagan af skringilegheitunum í konunni minni.
Meðvirknin
Frá því við byrjuðum saman fyrir sex árum síðan hefur hún haft horn í síðu viðhalds míns, Liverpool. Þetta var nú hóflegt til að byrja með, stöku andvarp og höfuðið hrist í einhvers konar meðaumkun. Líklega gerði hún sér ekki strax grein fyrir alvarleika málsins í upphafi sambandsins. Eflaust réttlætti hún hegðun mína á einhvern hátt, „þetta er nú líklega einhver úrslitaleikur“ eða „þetta er líklega sérstaklega gott tímabil... eða eitthvað“. Meðvirknin er lúmskt fyrirbæri.
Í fyllingu tímans hefur hún gert sér betur grein fyrir því hvernig sambandi hún er í og þeirri vissu fylgir bæði örvænting og innilokunarkennd. „Þarftu að horfa á þennan leik?“ heyrist æ oftar. „Er þetta eitthvað mikilvægur leikur?“, hún segir þetta í alvöru nokkuð oft, duh! Konunni minni leiðist fótbolti og hún skilur ekki hvernig ég get haft gaman af þessu, hvað þá að ég skuli hafa svona sterkar tillfinningar til þessa fótboltaliðs. Það er allt í lagi, ég skil ósköp vel að hún skilji þetta ekki. Ekki reyni ég að skilja áhuga hennar á dr. Phil og einhverjum feitabolluþáttum (en hneykslast samt mikið á því).
Hættur að horfa á leiki
Þess vegna féllust mér alveg hendur í gærkvöldi þegar Liverpool var að slá erkifjendurna Man Utd út úr Evrópudeildinni, og ég var ekki að horfa. „Ha? Er leikur?“ „eru þeir að spila við Man Utd?“ „Afhverju ert þú ekki að horfa?“ Sagði hún áhyggjufull á svip og kannaði hvort ég væri með hita (hún er að útskrifast sem hjúkrunarfræðingur sko). Hún virtist ekki vera búin að taka eftir því að ég hafði ekki horft á fótbolta um nokkra hríð, eða síðan Liverpool tapaði úrslitaleiknum í deildarbikarnum. Ég reyndi að útskýra málið fyrir henni. Ég var vanur að horfa á leiki á heimavelli Liverpoolaðdáenda á Akureyri, Sportvitanum. Þegar Sportvitanum var hins vegar lokað fluttum við okkur yfir í næsta hús, á Bryggjuna. Nú síðan þá hefur hvorki gengið né rekið hjá Liverpool. Ég hef farið nokkuð oft á Bryggjuna að horfa (langt í frá alla leiki samt) og ég hef enn ekki orðið vitni að Liverpool vinna leik. Nú þá hættir maður að sjálfsögðu að fara þangað (auk þess var ég vanur að fara með bróður mínum þangað og hann er búinn að banna mér að koma, og hann er sterkari en ég). Ég er fátækur námsmaður og er því ekki með neina áskrift og ólöglegu „streamin“ hafa ekki verið upp á marga fiska undanfarið. Ég hef því bara verið að fylgjast með textalýsingum af leikjunum, og viti menn, það er farið að ganga svona ljómandi vel hjá mínum mönnum.
Þetta er samt engin hjátrú
Konan mín horfði á mig í drjúga stund án þess að mæla orð frá munni. Svipinn á andliti hennar hef ég ekki séð áður og vona að ég sjái aldrei aftur. Þegar hún loks fékk málið aftur spurði hún: „heldur þú virkilega að það hafi einhver áhrif á úrslit fótboltaleikja á Englandi, hvort eða hvernig þú horfir á?“ Ég trúði því varla að hún væri að spyrja að þessu. Hvar er hún búin að vera öll þessi ár? Ætli hún hafi bara alls ekki tekið eftir því að ég raka mig aldrei 24 tímum fyrir leik? Eða kertaljósinu sem ég tendra undir „You‘ll Never Walk Alone“ stöfunum mínum á stofuveggnum fyrir leiki? Hefur hún aldrei tekið eftir öllum treyju seremóníunum? „Er það bara þú, sem getur haft svona áhrif á leiki,“ spurði hún með óþægilegri kaldhæðni í raddblænum. Nei, vitanlega ekki, svaraði ég hróðugur. Þetta er auðvitað hinn margrómaði samtakamáttur Liverpoolaðdáenda. „TRÚIR ÞÚ ÞESSU Í ALVÖRU?“ Spurði hún og það er ástæða fyrir hástöfunum.
Ég bara skil ekki hvernig hún getur spurt svona heimskulegra spurninga þegar ég er búin að sýna henni öll sönnunargögnin. EPE