Skáldahúsin í kuldanum

Á Akureyri eru þrjú mjög merkileg höfundasöfn; Nonnahús, Davíðshús og Sigurhæðir. Ríkið hefur lítið komið að rekstri þessara safna í gegnum tíð­ ina. Um tíma var Nonnahús þó á fjárlögum og fékk hæst hátt í 2 m.kr á ári.

Frá árinu 2009 til 2011 fengu þessi þrjú söfn 2,5 m.kr. samanlagt á ári en frá 2012 hafa söfnin ekki fengið neina rekstrarstyrki frá ríkinu. Enginn safnvörður sinnir söfnunum þremur í fullu starfi eins og vera þyrfti enda engir peningar til þess. Íslendingar eiga fleiri merk höfundasöfn; Gljúfrastein, Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri, Þórbergssetur og Snorrastofu sem fá öll rekstrarstyrk frá ríkinu og eru vel að því komin.

Ég sendi skriflega fyrirspurn til menntamálaráðherra og spurði hvort hann teldi að jafnræðis væri gætt þegar kæmi að fjárveitingum til höfundasafna á Íslandi. Of langt mál er að rekja allt svarið hér en í stuttu máli er vísað til þess að Minjasafnið reki skáldahúsin þrjú og hafi fengið styrki út á þau í gegnum Safnasjóð en einnig hin söfnin fjögur eigi í samningssambandi við ráðuneytið sem skýri rekstrarstyrkinn sem þau fá.

Minjasafnið á Akureyri er að sligast undan rekstri safnanna og þarf að ganga á eigið fé til að halda úti lágmarksstarfsemi. Á meðan safnið þarf að sækja styrki til Safnasjóðs til að létta undir með rekstri skáldahúsanna skerðir það sína möguleika á að sækja styrki til mikilvægra verkefna. Þá má velta því fyrir sér hvernig það hafi gerst að sum söfn eigi í „samningssambandi“ við ráðuneytið en önnur ekki. Hvað ræður þar för? Akureyrarbær og þingmenn kjördæmisins hafa ítrekað reynt að koma á slíku sambandi en hvorki gengið né rekið.

Úthlutun almannafjár má aldrei vera tilviljanakennd eða duttlungum háð. Skáldahúsin á Akureyri eru hluti af menningararfleið Íslendinga og ríkinu ber að styrkja starfsemi þeirra rétt eins og það styrkir önnur mikilvæg söfn. Ég skora á menntamálaráðherra að kippa þessu í liðinn hið fyrsta.

Höfundur er þingkona Bjartrar framtíðar 

Nýjast