Síðbúinn áhugi Framsóknar á byggðamálum
Oddviti framsóknarflokksins hér í Norðausturkjördæmi, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur að undanförnu viðrað þau sjónarmið sín að nú þurfi að fara í aðgerðir og hefja sókn í byggðamálum. Um það má segja að betra er seint en aldrei, en nokkuð er þessi áhugi síðbúinn.
Ríkisstjórn framsóknar- og sjálfstæðismanna hefur nýtt tíma sinn illa í þessum efnum og er nú sem kunnugt er á útleið og reyndar búin að vera í andaslitrunum síðan í vor. Að baki eru rúm þrjú meira og minna glötuð ár í málefnum landsbyggðarinnar. Þetta er þeim mun bagalegra sem þessi þrjú ár eru ekki bara glataður tími heldur voru aðstæður hagstæðar og í raun tilvaldar til að spíta í innviðafjárfestingar og uppbyggingarverkefni á landsbyggðinni, einkum framan af tímabilinu. Þannig var fjárfestingaráætlun ríkisstjórnar okkar Vinstri grænna og Samfylkingar einmitt hugsuð. Að nýta tímann meðan enn var slaki í hagkerfinu og ekki næga atvinnu að hafa til að styðja við batann með brýnum innviðafjárfestingum, meðan enn var hægt að fá hagstæð tilboð og undir kostnaðaráætlunum í verk o.s.frv.
En, eins og kunnugt er var eitt fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar að henda þeirri fjárfestingaráætlun með þeim rökum, sem reyndust síðan innistæðulaus, að hún væri ekki fjármögnuð. Fjárfestingaráætluninni eigum við samt að þakka að ýmsar stórframkvæmdir hafa verið í gangi, svo sem Norðfjarðargöng. Satt best að segja er það þannig að allar stærstu opinberu framkvæmdir sem hafa verið í gangi innan kjördæmisins, Norðfjarðargöng, Vaðlaheiðargöng, framkvæmdir á Bakka og í Þingeyjarsýslum, flughlað á Akureyri, o.s.frv., voru settar af stað í okkar tíð, en núverandi ríkisstjórn hefur skilað auðu.
Sóknaráætlanir eyðilagðar og samgöngumál vanrækt
Næst á eftir því að henda fjárfestingaráætlun vinstri stjórnarinnar án þess að koma með nokkuð í staðin gerði núverandi ríkisstjórn ein sín mestu mistök með því að gelda sóknaráætlanir landshlutanna og skera þær svo harkalega niður að segja má að þær hafi verið í öndunarvél síðan. Við lögðum upp 2012 með sóknaráætlanir sem til að byrja með og næstu þrjú árin fengju 1200 milljónir. Óþarf er að tíunda þá miklu vinnu heimamanna og stjórnvalda sem að baki lá við að móta aðferðafræðina og tryggja þann sjálfsákvörðunarrétt sem fjármunirnir færðu svæðunum til að ákveða sjálf skiptingu fjárins og forgangsröðun verkefna. Upphaflega ætlaði ríkisstjórn framsóknar- og sjálfstæðismanna að skera sóknaráætlanirnar algerlega burt (fjárlagafrumvarp fyrir 2014 gerði ráð fyrir 15 milljónum), en í meðförum Alþingis tókst að pína inn 100 milljónir og með þá fjármuni eða litlu meira hefur verið hjakkað síðan. Þessu til viðbótar stendur einkanlega upp úr hvernig núverandi ríkisstjórn hefur svelt samgöngumálin og í raun herfilega vanrækt þann málaflokk. Samanber það að enn, þegar þetta er skrifað, hefur henni ekki tekist að afgreiða eina einustu samgönguáætlun. Á þingi liggja nú að vísu fyrir breytingatillögur við áætlun vorsins sem bæta nokkuð í og eru til bóta, Dettifossvegur til að mynda aftur inni með fjárveitingar næstu tvö ár. En, þessar breytingatillögur ganga allt of skammt og eru auðvitað f.o.f. takmörkuð viðurkenning á því hversu hörmulega ríkisstjórnin hefur staðið sig.
Hér mætti auðvitað bæta mörgu við, svo sem þrengingarnar í rekstri framhaldsskólanna, klúður og vandræðagangur í sambandi við uppbyggingu innviða í þágu ferðaþjónustunnar, ónógir peningar og léleg eftirfylgni við kerfið sem við komum á í okkar tíð til jöfnunar á flutningskostnaði (lægri krónutala veitt í verkefnið í dag en þegar við lögðum upp fyrir 5 árum) o.s.frv. Til að sanngirni sé gætt er þó rétt að nefna að í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa verið lagðir nokkrir fjármunir í að koma á ljósleiðaratenginum, en að því var reyndar lagður grunnur á síðasta kjörtímabili með því að framlengja líf fjarskiptasjóðs og halda honum á lífi með nokkrum fjármunum gegn um erfiðustu árinu eftir hrun. Á umdeildri aðferðafræði við útdeilingu styrkjanna bera núverandi stjórnvöld hins vegar ein ábyrgð.
Lokaorð
Til að það sé sagt skýrt að lokum, þá dugar ekkert minna nú en stórátak í endurnýjun og uppbyggingu margskonar innviða samfélagsins og það ekki síst á landsbyggðinni. Vegakerfið eitt, í sínu hörmulega ástandi, þarf að lágmarki eina 10 milljarða árlega í viðbót við það sem hefur verið í gangi og haldist óbreytt undanfarin ár. 7-8 milljarðar af því fást með því einu að færa á nýjan leik markaða tekjustofna upp til verðlags sem þessi ríkisstjórn hefur vanrækt. Sóknaráætlanir landshlutanna á að setja aftur í gang af fullum krafti og verja a.m.k. 15-1800 milljónum til þeirra árlega. Tvöfalda þarf framlag til jöfnunar flutningskostnaðar, klára að jafna húshitunarkostnað þar sem vissulega hefur talsvert áunnist tvö síðustu kjörtímabil og með batnandi þjóðarhag þarf að efla á ný nærþjónustu hins opinbera á sviði heilbrigðismála, skólamála, löggæslu o.s.frv. og það ekki síst á landsbyggðinni.
Höfundur er alþingismaður og skipar 1. sæti á framboðslista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi.