20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Menntun er dýrmæt
Ég hef sl. 15 ár verið svo lánsöm að hafa fengið að starfa í fullorðinsfræðslunni, sem eins og nafnið gefur til kynna grundvallast á þjónustu við fullorðið fólk sem kemur til að mennta sig. Það á hvoru tveggja við um fólk sem hefur ekki lokið formlegu framhaldsskólanámi og annað fólk úr atvinnulífinu með fjölbreytta menntun. Flest fullorðið fólk kemur til að bæta við menntun sína af því það langar til þess og oft á tíðum bætir það náminu ofan á langan vinnudag og heimilishald. Þetta fólk kemur í skólann fyrir sjálft sig, það finnur í því tilbreytingu frá daglegu amstri, stendur sig vel og fær mikið út úr náminu.
Nú starfa ég m.a. við kennslu í framhaldsskóla og ég hef verið hugsi yfir nokkrum atriðum. Stytting framhaldsskólans þýðir það að unglingarnir okkar vinna afar langan vinnudag. Flestir sitja í skólanum frá kl. 8:15 til 16:30 fimm daga vikunnar en þegar skóla lýkur á eftir að sinna heimanámi og frístundum.
Unglingarnir okkar eru magnað fólk og einstaka hentar þetta fyrirkomulag þó sennilega séu hinir fleiri sem bíta á jaxlinn þegar líður á daginn og reyna bara að þrauka.
Á sínum tíma afplánaði ég nám í viðskiptafræði. Ekki vegna þess að námið hafi ekki verið gott eða vel skipulagt, heldur vegna þess að ég var ekki tilbúin. Ég hafði takmarkaða reynslu til að máta fræðin við og mér leiddist. Engu að síður lauk ég náminu, það hefur reynst mér hagnýtt og reyndar hef ég í gegnum tíðina margsinnis óskað þess að ég hefði druslast til að taka betur eftir í tímum í gamla daga því þá hefðu mörg verkefni reynst mér auðveldari. Nú er svo komið að ég er á öðru ári í MBA, hagnýtu meistaranámi á sviði viðskipta í Háskóla Íslands og ég nýt þess í botn. Fræðin tala beint inn í þann reynsluheim sem ég hef öðlast í atvinnulífinu frá því ég útskrifaðist úr HA fyrir mörgum árum og ég hlakka alltaf til að mæta.
Mig langar ekki til að fólk upplifi sig nauðbeygt til að afplána lítið spennandi skólavist, á sem stystum tíma og án þess að upplifa af því augljósa gagnsemi.
Mig langar að búa í samfélagi þar sem fólk nýtur þess að sækja sér menntun og finna hvernig það vex að afli með því að læra meira í dag en í gær í stað þess að harka af sér að læra á sem fæstum árum. Afplána langa og leiðinlega daga vegna þess að ef það er ekki búið að því áður en það verð ur 25 ára gæti það verið búið að missa af lestinni. Ég er sannfærð um að það er ekki hagkvæmast fyrir samfélagið okkar að allir ljúki framhaldsskólaprófi og svo háskólaprófi með samfelldri skólagöngu á sem stystum tíma og án þess að öðlast nokkra reynslu af vinnumarkaði, sem heitið getur.
Í raun er málið ekki flókið, það þurfa allir að geta sótt sér menntun óháð aldri, búsetu og fjárhag. Það þarf fólk að geta gert á sínum eigin forsendum þegar það er hagkvæmast og skilar mestu fyrir það sjálft.
Höfundur skipar 2. sæti á lista Samfylkingar