Lýðræði í hættu

Einar Brynjólfsson
Einar Brynjólfsson

Líklega hafa Grikkirnir sem lögðu grunninn að lýðræðinu fyrir u.þ.b. 2.500 árum ekki gert sér grein fyrir því í hvaða hremmingum þetta afkvæmi þeirri ætti eftir að lenda. Á löngu tímabili var það með öllu gleymt og grafið, þangað til framsýnir einstaklingar dustuðu af því rykið fyrir nokkur hundruð árum vestur í Norður-Ameríku. Þá tók við erfitt þroskaferli þar sem skiptust á skin og skúrir en það tók sína vaxtakippi engu að síður og náði að lokum fullum þroska. Svo rann upp sú stund að almenn samstaða náðist um að lýðræðinu væri bezt þjónað ef ríkisvald yrði aðgreint í þrjá hluta, löggjafavald, framkvæmdarvald og dómsvald, þar sem sæmilega skýr mörk yrðu dregin á milli þeirra.

Loks kom svo að því að fjölmiðlar stilltu sér upp á hliðarlínunni, í þeim tilgangi að veita hinu þrískipta ríkisvaldi aðhald, lýðræðinu til stuðnings. Með því tóku þeir sér stöðu sem "fjórða valdið" í samfélaginu.

En hafi einhver talið að nú væri lýðræðið komið fyrir vind, þá er það því miður alls ekki þannig. Spilltir einstaklingar hafa skipað sér í fylkingar og herja á lýðræðið með ýmsum brögðum, úr ýmsum áttum, gagngert til að skara eld að sinni köku. Atburðir síðustu daga eru enn einn vitnisburðurinn um þá hættu sem að lýðræðinu steðjar.

Laugardaginn 28. október gefst kjósendum tækifæri til að stöðva þessa þróun.

-Höfundur er þingmaður og oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi

Nýjast