Léleg snjóhreinsun gatna í bænum
Það hefur vakið allmikla athygli eftir að snjóaði töluvert fyrir stuttu hvað göturnar í bænum eru illa hreinsaðar. Þær eru margar það illar yfirferðar að líkja má við slæm þvottabretti á gömlum illfærum malarvegum. Þarna kemur að sýnist ekki nema eitt til. Þeir, sem stjórna snjóruðningstækjunum kunna ekki til verka, eða af einhverjum ástæðum skafa ekki göturnar eins og þarf, nefnilega alveg niður í malbik. Þar af leiðir eru flestar götur í bænum eins og fyrr segir að aka eftir þeim eins og slæm þvottabretti, sem verður til þess að bílarnir eru að hristast í sundur hvort, sem um er að ræða eldri, nýja eða nýlega bíla. Slæmt verður ástandið ef hlánar.
Kunningi minn einn, sem hafði verið á ferð um bæinn tók eftir því að hljóðið í bílnum breyttist. Eftir ítarlega skoðun sást að losnað hafði festing á púströri við allan skaksturinn og bútur úr því orðið einhvers staðar eftir. Skyldi bærinn greiða fyrir tjón af þessum sökum, ófærar götur?
Nokkrar götur í bænum eru illfærar vegna þess að þær hafa ekki verið mokaðar þegar þetta er skrifað og má nefna t.d. Þórunnarstræti norðan Þingvallastrætis, Mýrarveg og miðbæinn að stórum hluta. Vitað er um vinnuvélaeiganda hér í bæ mjög vandvirkan svo eftir er tekið og bera þess merki lóðir og bílaplön þar sem hann hefur verið að verki. Einhverra hluta vegna fær hann ekki vinnu hjá Akureyrarbæ og borið við að hans tæki séu ekki með næg hestöfl til að ráða við snjó mokstur, sem er auðvitað bull og rugl. Þarna hljóta að liggja að baki annarlegar hvatir því ég veit allt um hvað snjómokstur útheimtir mörg hestöfl við slíka vinnu. Sagt er að löngum hafi klíkuskapur loðað við Akureyrarbæ.
Rafmagnslaust
Nýverið kom fram hjá formanni bæjarráðs að ekki fengist nægt rafmagn til Akureyrar og af því leiddi að ekki væri hægt að bjóða hingað fyrirtækjum stórum né smáum til búsetu því það vanti rafmagn.
Hvað á þetta að þýða? Á sama tíma eru uppi háværar raddir um að flytja rafmagn úr landi og hver virkjunin af annarri er byggð. Maður spyr sig hvort þetta ástand sé vegna aumingjaskapar úr núverandi og fyrrverandi bæjarstjórnum, og margra alþingismanna úr flestum flokkum, sem eru hér í NA-kjördæminu, eða hvað er í gangi?
Er þetta ekki dæmalaust að láta viðgangast að stærsti þéttbýliskjarni utan höfuðborgarsvæðisins sé svo sveltur með rafmagn að standi allri atvinnuuppbyggingu á Akureyri fyrir þrifum. Takið nú hendur úr vösum.