20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Hlátur í boði Hörgdæla
Þann 3. mars síðastliðinn frumsýndi leikfélag Hörgdæla farsann Með vífið í lúkunum eftir Ray Cooney á Melum í Hörgárdal. Verk Cooneys hafa verið vinsæl hjá íslenskum leikfélögum í gegnum tíðina en meðal annarra verka hans eru farsarnir Beint í æð og Nei, ráðherra sem margir kannast við og hafa séð í uppsetningum bæði hjá áhugaleikfélögum og í atvinnuleikhúsum hér á landi. Með vífið í lúkunum segir frá leigubílstjóranum John Smith sem lifir tvöföldu lífi en hann á tvær eiginkonur, sem eðli málsins samkvæmt eru algerlega ómeðvitaðar um tilvist hvor annarrar. John þessi Smith fylgir nákvæmu skipulagi til þess að tryggja að ekki komist upp um hann og ótryggðina en óvænt atburðarás verður til þess að öll tímaáætlunin raskast og þá verður aldeilis handagangur í öskjunni.
Til að byrja með verð ég að hrósa leikarahópnum. Þau stóðu sig öll með prýði og greinilegt er að þau ná vel saman því hópurinn var þéttur og orkan á milli leikaranna góð. Allir leikararnir áttu skemmtileg augnablik í sýningunni. Eiginkonurnar tvær voru oft og tíðum frábærar, bæði hin skapmikla Mary sem Stefaníu E. Hallbjörnsdóttur leikur, og hin munúðarfulla Barbara, sem leikin er af Fanneyju Valsdóttur. Þráinn Sigvaldason stóð sig vel í hlutverki undirförla eiginmannsins John Smith og átti hann góða spretti, sérstaklega í samleik sínum með Bernharð Arnarsyni.
Bernharð leikur atvinnulausa nágrannann Stanley Gardner, sem verður vitorðsmaður hins ótrúa eiginmanns án þess að hafa nokkurn áhuga á því. Hlutverk Stanleys er nokkurs konar trúðshlutverk, en Bernharð vakti mikla lukku hjá áhorfendum frá því hann birtist fyrst á sviðinu og virtist hann finna sig vel í hlutverkinu. Lögreglumennirnir tveir sem flækjast inn í líf Smiths eru skemmtilegar andstæður og leikararnir komu hlutverkunum vel til skila. Sigurður Elvar Viðarsson leikur lögreglufulltrúann Trougthon, sem er harður í horn að taka, á meðan lögreglumaðurinn Porterhouse, sem leikinn var af Sigurði Baldvini Sverrissyni, er auðtrúa og ljúfur. Báðir leikararnir fundu sig vel í hlutverkum sínum og Sigurður Baldvin, sem hinn svuntuklæddi Porterhouse, var algerlega frábær í seinni hluta sýningarinnar. Það var ekki að merkja að nokkuð frumsýningarstress væri í hópnum og þó vissulega hafi einhverjir hnökrar verið, eins og iðulega í leikhúsi, voru þeir svo smávægilegir að það er alger óþarfi að minnast á þá því þeir blikna í samanburði við allt það jákvæða við sýninguna og hversu vel til tókst.
Það eru prestshjónin að Möðruvöllum, þau Margrét Sverrisdóttir og Oddur Bjarni Þorkelsson, sem leikstýra verkinu en þau hafa bæði mikla reynslu af leikhússtörfum. Mörg börn kannast við Margréti í hlutverki álfsins Skottu í Stundinni okkar en þau Oddur unnu saman að þáttunum um nokkurra ára skeið. Hjónin eru greinilega gott teymi því Með vífið í lúkunum er afar vel heppnuð sýning. Ég vissi ekki við hverju ég átti að búast þar sem ég hef aldrei áður farið á sýningu hjá leikfélaginu. Áhugaleikhús eru misjöfn eins og þau eru mörg en þessi sýning kom skemmtilega á óvart. Leikstjórarnir eiga hrós skilið fyrir vel unnin störf og það var vel skipað í hlutverkin af þeirra hálfu. Sýningin rann áreynslulaust áfram og var stórskemmtileg frá upphafi til enda. Tæknileg atriði, sem skipta miklu máli í sýningu eins og þessari, voru vel útfærð og allt gekk prýðilega vel upp. Leikgleðin var nánast smitandi og salurinn veltist um af hlátri frá fyrstu mínútu og fram að lokum sýningarinnar og þegar kemur að gamanleikriti er víst ekki hægt að biðja um meira. Sýningin Með vífið í lúkunum er á heildina litið vel heppnuð sýning og þeir sem vilja láta skemmta sér almennilega ættu tvímælalaust gera sér ferð í Hörgárdalinn og ekki láta þessa sýningu framhjá sér fara.
-Tinna Eiríksdóttir