Gengið um Krossanesborgir
Að ganga um Krossanesborgir er alveg dýrðlegt. Það er búið að leggja þar góða göngustíga við allra hæfi. Það þarf ekki að fara lengra til að komast í nálægð við felst það sem náttúran hefur upp á að bjóða. Fjölbreytt fuglalíf, fjölbreyttan gróður og margvísleg jarðfræðileg fyrirbrigði. Krossanesborgir eru fólkvangur, sem þýðir í raunað þær eru friðaðar, en samt á forræði bæjarins.
Við erum heppin að eiga svona svæði innan bæjarmarkanna.
Aðkoma er á tveimur stöðum. Beint utan við Byko er plan, með upplýsingaskilti um svæðið og gönguleiðirnar. Einnig er hægt að fara útaf Norðurlandsvegi, á móts við stóra upplýsingaskiltið og ganga þaðan. Á undanförnum árum hefur verið unnið að stígagerð í borgunum og er nú malborinn stígur um megin hluta þeirra. Það er hægt að velja sér nokkrar vegalengdir. Lengsti hringurinn er um 4,5km, en stysti er um 1,5km Svo er hægt að blanda þessu á mismunandi hátt. Svo er hægt að ganga inn í borgirnar og snúa við þegar maður vill. Að ganga t.d. frá Hundatjörn og út að fuglaskoðunarhúsinu við Djáknatjörn og til baka er um 3km. Við göngustiginn hefur verið komið fyrir upplýsingaskiltum á nokkrum stöðum, þar sem hægt er að lesa um fugla, gróður, jarðfræði eða um svæðið. Ég held þau séu tólf. Ég hef oft ætlað að telja þau á göngu minni um svæðið, en er alltaf búinn að týna tölunni þegar á leiðarenda er komið. Ég skora á ykkur að staldra við hjá þeim og lesa þau. Þar er ýmsan fróðleik að finna. Á svæðinu eru tvær og hálf tjörn.
Við inngöngu inn í borgirnar er Hundatjörn. Hvers vegna hún heitir Hundatjörn veit ég ekki, en heyrði einhvern tímann þá skýringu sem ég læt fljóta með að bóndi í nágrenninu hefði misst alla sína hunda í tjörnina og þaðan sé nafnið komið. Utarlega í borgunum er Djáknatjörn. Á henni er gífurlega fjölbreytt fuglalíf, sem gaman er að fylgjast með. Við tjörnina er fuglaskoðunarhús og upplagt, þótt þið séuð ekki að fara að skoða fuglalíf að koma þar við og kvitta í gestabók, sem þar liggur frami. Gömul þjóðsaga segir að tjörnin beri nafn sitt af því að ofan í hana hafi farið í gegnum ís djákni með hesti sínum og hundi. Það er skemmst frá því að segja að líkið af djáknanum rak upp í Hrísey, hesturinn fannst á Galmaströnd, en hvar er hundurinn? Hálftjörnin er svo kölluð Startjörn. Þar er ekki um eiginlega tjörn að ræða heldur votan flóa, ófærum gangandi. Neðst í borgunum liggur stígurinn eftir gamalli götu. Það er sennilega með elstu götum sem legið hafa norður frá Akureyri út Kræklingahlíðina.
Að ganga þarna um svæðið kemur manni í gott samband við náttúruna. Svæðið er mjög markað af átökum náttúrunnar og breytingum frá ísöld. Framskrið jökla úr Glerárdal hefur mjög mótað þetta svæði og klappirnar bera þess glöggt merki. Á milli klappaborganna eru svo mýrarflákar og þúfubörð. Töluvert er um sjálfsprottin tré. Gróður er mikill á svæðinu og berjaspretta með hreinum ágætum, nema í haust. Frekar lítið er af berjum og þau ekki vel þroskuð. Þarna má líka finna minjar um hernámið og veru Breta hér. Það má sjá móta fyrir skotgröfum, einstaka girðingastaur frá þeim og svo gaddavírsflækjur. Einnig má sjá leyfar af eldri áveitu á svæðinu. Þegar gengið er um svæðið er ekkert sem bannar að fara út af slóð, leggjast á milli þúfna og njóta gróðurs og berja, eða ganga upp á klappirnar og virða fyrir sér ummerki eftir átök ísaldarloka og sjá jökulsorfnar klappirnar. Útsýni um nágrenni er mjög gott, bæði inn og út fjörðinn.
Ég skora á ykkur að taka góðan göngutúr í Krossanesborgum. Svæðið býr yfir svo miklum krafti að þið komið endurnærð til baka.
Gleymið ekki myndavélinni.