Bónusverslun og hafnarsvæðið
Fyrir hönd baráttuhóps um bætta matvöruverslun á Húsavík langar mig að þakka Guðmundi Marteinssyni framkvæmdastjóra Bónuss svar hans við áskorun okkar um Bónusverslun á Húsavík, þótt við séum langt í frá sáttir við niðurstöðuna.
Okkar skoðun er sú að matvöruverslun fyrir neðan bakkann sé síður en svo góð staðsetning. Þetta svæði fyrir neðan bakkann er alltof þröngt til að koma fyrir verslun af þeirri stærð sem markaðurinn þarfnast með tilheyrandi bílastæðum og svigrúmi sem starfsemin krefst.
Ef að Bónus vill ná til ferðamanna til viðbótar við íbúa á svæðinu þá er svæðið sunnan við Þingeyjarsýslubraut beint á móti Norðlenska, að okkar viti hinn kjörni staður og þar er landrými sem setur starfseminni engar skorður.
Þessi staðsetning hefur þann kost að inn í bæinn kemur enginn án þess að aka fram hjá Bónus og út úr bænum fer enginn án þess að aka fram hjá Bónus. Fyrir utan 4-5000 íbúa Norðurþings eru hér 2-300 þúsund ferðamenn og ferðamennskan er að verða á ársbasis, þó auðvitað sé hún langmest frá apríl til október.
Það er því einlæg von okkar íbúa á svæðinu að forráðamenn Bónus endurskoði afstöðu sína og vinni með okkur að framförum til framtíðar. F.h. Baráttuhóps um bætta matvöruverslun á Húsavík
Hlífar Karlsson.