20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
„Bannað að hanga í sturtunum”
Ingólfur Sverrisson skrifar Þanka gamals Eyrarpúka
„Bannað að hanga í sturtunum,” kallaði Ingi sturta þegar við strákarnir dvöldum of lengi undir volgri bununni í íþróttahúsinu fyrir ofan Andapollinn. Í þá daga þurfti að hita upp vatnið með ærnum kostnaði og þess vegna eðlilegt að haft var strangt eftirlit með því að ekki væri bruðlað með svo dýrmætan vökva. Skólasystur okkar sögðu sömu sögu þegar Sigga sturta fylgdi reglunni eftir hinum megin í húsinu með ekki minni festu en Ingi enda ákveðin kona og vildi hafa allt í röð og reglu.
Fyrsta leikfimidaginn hélt Ingi lítið námskeið fyrir okkur strákana áður en við fórum í sturtu eftir tímann. Innihald þess var að kenna okkur að nýta handklæðin rétt. Hann stóð fyrir framan okkur með eitt slíkt og sagði mikilvægt að skipta því í þrjá jafna hluta. Sýndi okkur svo hvar og hvernig væri best að nota hvern part við þurrkunina. Síðan flétti Ingi handklæðinu í sundur og útskýrði hvernig ætti að halda í sinn hvorn endann fyrir aftan bak og draga það síðan fram og til baka. Eftir allar þessar vendingar væri tryggt að við yrðum skraufþurrir. Þetta þótti okkur mjög verklegt þó misjafnlega hafi gengið að nýta þennan ágæta fróðleik okkur til hagsbóta.
Jafnan var mikið fjör í strákaklefanum eftir leikfimitímana. Þetta var á þeim árum þegar við veltum mikið fyrir okkur hver væri sterkastur og þar með mesti kappinn í 43-árganginum. Almælt var að Konráð, sonur Jóa Konn söngvara, væri sá sterkasti enda knár á velli. Svo var það einu hverju sinni að stungið var upp á því í búningsklefanum að fá endanlega úr þessu skorið og lagt til að Konni færi í sjómann við einhvern okkar. En hver átti það að vera? Fyrir einhverja dauðans ólukku bárust böndin að ykkar einlægum og óðar var mér ýtt út í þessa ófæru þrátt fyrir örvæntingarfulla tilraun til að komast undan því.
Við Konni lögðumst endilangir á gólfið, hvor á móti öðrum haus í haus. Strákarnir hópuðust allt í kring og hrópuðu hvatningarorð til okkar þar sem við réttum fram hægri hendur og lúkurnar féllu saman fyrir átökin. Svo hrópaði einhver: „Byrja.” Hægt og hikandi hertum við tökin og fóru hendurnar að skjálfa vegna átaksins. Fyrstu sekúndurnar liðu án tíðinda og allt fast. Sjálfur remdist ég eins og rúpan við staurinn og vildi ekki gefa mig fyrr enn í fulla hnefana; vonaði að mér tækist að þreyta andstæðinginn og hafa hann á þrjóskunni ef styrkinn þryti. En enginn má sköpum renna. Með styrk sínum og atgervi tókst Konna að færa hönd mína í ranga átt og fór nú mjög að halla á áskorandann. Þá tók ég á síðustu kröftunum en ekkert dugði, hönd mín seig virðulega niður á gólfið og ósigur staðfestur. Þar með var ljóst að Konni var sterkastur í árganginum og óþarfi að deila frekar um það. Árin liðu og þegar við urðum svo samstarfsmenn áratugum síðar í Slippstöðinni var vinátta okkar endurnýjuð og endanlega staðfest báðum til ómældrar ánægju. Konni var alla sína tíð mikið heljarmenni sem tekið var eftir en ávallt drengur góður.
Ingólfur Sverrisson