Yngsta kynslóðin sýndi listir sínar í PCC Reiðhöllinni

Gleðin skein úr hverju andliti á reiðnámskeiði í PCC Reiðhöllinni. Myndir/epe
Gleðin skein úr hverju andliti á reiðnámskeiði í PCC Reiðhöllinni. Myndir/epe

Það er búið að vera líf og fjör í PCC reiðhöllinni í Saltvík rétt utan Húsavíkur í vikunni.

Hestamannafélögin Þjálfi og Grani hafa verið með reiðnámskeið fyrir yngstu kynslóðina undan farin ár og hefur aðsóknin verið einstaklega góð. Oddný Lára Guðnadóttir hefur séð um kennsluna en hún rekur Reiðskóla Oddnýjar Láru.

Nú stendur yfir eitt fjölmargra námskeiða sem félögin standa fyrir en kennt hefur verið í tveimur hollum, fyrir og eftir hádegi í gær og í dag. Blaðamaður Vikublaðsins leit við í dag og var bergnuminn yfir örygginu sem þessir ungu knapar sýndu af sér á hrossunum.

Fréttin hefur verið uppfærð

Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar og í fyrirsögn var talað um Reiðhöll hestamannafélagsins Grana sem Bústólpahöllina. Reiðhölllin hét það vissulega áður en Grani gerði í byrjun síðasta mánaðar samstarfssamning við PCC BakkiSilicon og ber reiðhöllin því nafn félagsins í dag. 

í tilkynningu á Facebooksíðu Grana segir að í samkomulaginu felist meðal annars að reiðhöllin muni bera heiti PCC BakkiSilicon og mun Grani bjóða starfsfólki fyrirtækisins upp á að halda sérstaka fjölskyldudaga í reiðhöllinni þar sem áhersla verður lögð á að kynna starfsfólki og fjölskyldum þeirra fyrir félaginu og starfsemi þess.
 
,,Það er ánægjulegt að hefja samstarf við PCC og fá tækifæri til að styrkja starf Grana með því að kynna félagið fyrir starfsfólki PCC," sagði Bjarki Helgason, formaður Grana við undirritun samningsins.
 
,,Við erum ákaflega stolt af því að hefja samstarf við Grana og styðja þannig við það öfluga starf sem félagið heldur uppi. Jafnframt er samstarfið liður í því að efla mannauðinn okkar til þátttöku í nærsamfélagi fyrirtækisins. Við vonum að samstarfið verði öllum aðilum til heilla," sagði Andri Dan Traustason, fjármálastjóri PCC BakkiSilicon

Nýjast