Margrét EA landaði fyrsta farminum á Eskifirði í gær
Margrét EA 710, nýtt uppsjávarskip í flota Samherja, landaði á Eskifirði í gær um tvö þúsund tonnum af loðnu. Skipið, sem smíðað var í Noregi árið 2008 var keypt í Skotlandi og hét áður Christina S.
Margrét kom til Reykjavíkur síðasta miðvikudag eftir siglingu frá Skotlandi og í kjölfarið var hafist handa við að uppfylla tilskilin leyfi samkvæmt íslenskum reglugerðum um fiskiskip. Margrét hélt á loðnumiðin út af Reykjanesi á föstudagsmorgun og nokkrum klukkustundum eftir að komið var á miðin var búið að dæla úr nótum fjögurra skipa um borð í Margréti, sem sigldi með hráefnið austur til vinnslu.