20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Styrkur til framkvæmda á lóð Húsavíkurkirkju
Á fundi byggðarráðs Norðurþings þann 23. febrúar sl. samþykkti ráðið að styrkja Sóknarnefnd Húsavíkurkirkju um allt að 5 milljónir króna á árinu 2023 vegna framkvæmda á lóð við kirkjuna sem fyrirhugað er að hefjist nú í vor.
Lóðarhönnunin er unnin af Landslagi í samvinnu við sóknarnefnd og fleiri aðila og var til kynningar á íbúafundi á Húsavík á haustdögum. Hönnunartillöguna má sjá nánar hér.
Sóknarnefnd átti fund með hönnuðum og arkitekt, garðyrkjumeistara og öðrum er að framkvæmdinni koma þann 1. mars sl. þar sem unnið var að því að skipuleggja verklag og tímaramma verksins.
Að því tilefni undirrituðu Frímann Sveinsson, varaformaður sóknarnefndar og Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri, samning um veittan styrk Norðurþings til framkvæmdanna.
Styrkurinn er viljayfirlýsing Norðurþings til að stuðla að framkvæmd og uppbyggingu við lóð Húsavíkurkirkju skv. metnaðarfullri áætlun sóknarnefndar sem lögð var fram til kynningar í byggðarráði. Aðilar eru sammála um að með heildarframkvæmdinni verði lóðin partur af bættri mynd miðbæjarins þar sem heimamenn sem gestir geta tyllt sér niður og notið gæðastunda.