23. október - 30. október - Tbl 43
Nauðsynlegt fyrir framþróun sundíþróttarinnar að fá yfirbyggða sundlaug
„Aðstaða til sundiðkunar á Akureyri er því miður langt í frá nægilega góð, margt mjög ábótavant því miður,“ segir Einar Már Ríkarðsson varaformaður Sundfélagsins Óðins á Akureyri. Dýrleif Skjóldal hefur vakið athygli á því undanfarið að lítið hafi þokast í átt að því að skapa sundfólki betri aðstöðu til æfinga, sú saga sé löng og fátt ef nokkuð jákvætt gerst í þeim efnum.
Einar Már segir að til að vel sé þurfi yfirbyggða sundlaug sem myndi stórbæta aðstöðu til afreksþjálfunar. „Við erum að missa efnilega iðkendur suður eða til útlanda því aðstaða hér hjá okkur er svo slæm,“ segir hann.
Fella niður æfingar vegna kulda
Sem dæmi nefnir hann að fella þurfi niður fjölmargar æfingar á hverjum vetri vegna kulda. „Við höfum neyðst til að fella æfingar niður, það er ekki hægt að bjóða upp á æfingar þegar hvað kaldast er. Það er meiri hætta á meiðslum þegar æft er í kulda og svo er alls ekki hægt að sjá sundmenn þegar uppgufun úr lauginni er mikil í frosti. Það hefur í för með sér að ómögulegt er fyrir þjálfara að leiðbeina iðkendum og að ekki sé talað um öryggi sundmanna,“ segir Einar Már.
Sundfélagið Óðinn á erfitt með að halda sundmót þar sem starfsemin er eins háð veðri og raun ber vitni. Sund sé vetraríþrótt, þar sem keppnistímabilið er frá september fram í júní. „Við höfum þurft að stíla inn á haust og vor með okkar mót og vonast til að veðrið verði okkur hagstætt, sem vissulega er alls ekki alltaf,“ segir hann. Þá sé félagið með æfingahóp fyrir fatlaðað fólk, sem lang best væri að æfði við bestu aðstæður inni.
Einar Már Ríkarðsson varaformaður Sundfélagsins Óðins
Hæfileikaríkir og metnaðarfullir sundmenn íhuga að flytja úr bænum
Félagið hefði því margoft bent á nauðsyn þess að á Akureyri væri til staðar yfirbyggð sundlaug. Æfingatímabil iðkenda yrði lengra og þá yrði einnig hægt að vinna upp biðlista eftir að komast að í sundskólann. „Það er orðið mjög aðkallandi að hér sé til 50 metra yfirbyggð sundlaug. Það er stórt mál fyrir sundíþróttina í bænum auk þess að vera lýðheilsumál.“ Hann bendir á að það séu ekki bara metnaðarfullir og hæfileikaríkir sundmenn sem standi frammi fyrir þeirri ákvörðun að flytja úr bænum til að geta æft sund við viðunandi aðstæður eða hætta æfingum að öðrum kosti. „Fjölskyldur þessara sundmanna standa líka frammi fyrir þessari ákvörðun,“ segir hann og bætir við að nýverið hafi sundfólk úr Óðni farið í keppnisferð til Hafnarfjarðar þar sem sundaðstaða er til fyrirmyndar. Eitt foreldrið nefndi að það væri kannski bara rétt að flytja þangað.“