Matargjafir ganga í endurnýjun lífdaga fyrir jólin
„Þar sem að ég virðist ekki geta slitið mig frá Matargjöfum (held að við séum ein eining) þá hef ég ákveðið að halda áfram í breyttri mynd 11. jólin okkar saman,“ skrifar Sigrún Steinarsdóttir á facebook síðu Matargjafa á Akureyri og nágrenni. Hún opnaði fyrr í vikunni reikning Matargjafa og vonar að þeir sem áður lögðu henni lið með mánaðarlegu framlagi haldi því áfram, „því án ykkar er þetta ekki hægt.“
Úthlutun byrjar í lok nóvember og þá með því að dagatölum verður úthlutað, en sjálf jólaúthlutunin hefst um miðjan desember. Sjálfboðaliðar sjái um að reka Matargjafir, en hafist verður handa við að skrá niður á jólalistann um mánaðamót nóvember og desember. Hægt er að senda inn ábendingar um einstaklinga eða fjölskyldur í vanda.
Sigrún segir að Matargjafir munu starfa í breyttri mynd að þessu sinni. Starfsemin fari ekki fram við heimili hennar og er hún að vinna í því að fá húsnæði. „Ég er ekki tilbúin að borga leigu, rafmagn, hita og þess háttar af þeim peningum sem þið eruð að safna fyrir,“ segir hún og að allur sá peningur sem safnast fari til skjólstæðinga Matargjafa.
Vantar tölvu, prentara, síma….
„ Matargjöfum vantar tölvu, prentara, síma og áskrift af síma og fer ég í það að hafa samband við fyrirtæki um styrk fyrir því. Ef þið þekkið eitthvað til hjá fyrirtækjum eða viljið sjálf styrkja þá er öll aðstoð vel þegin,“ segir Sigrún í færslu sinni. Þeir sem þekkja til hjá fyrirtækjum og vilja leggja lið eru hvattir til þess.
„Ég vil þakka ykkur það traust sem þið hafið sýnt mér þessi rúmlega 10 ár sem við höfum starfað saman, það er ómetanlegt að hafa fólk sem stendur þétt við bakið á mér, ykkar vegna mun ég halda áfram því það eruð þið sem gefið mér kraftinn til þess,“ segir Sigrún að lokum.