Hvítasunnukirkjan styrkir Hollvinasamtök

Jóhannes Bjarnason, formaður Hollvinasamtaka SAk, Jóhanna Sólrún Norðfjörð, forstöðumaður Hvítasunnu…
Jóhannes Bjarnason, formaður Hollvinasamtaka SAk, Jóhanna Sólrún Norðfjörð, forstöðumaður Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri ásamt Ásdísi Jóhannsdóttur sem er í stjórn kirkjunnar. Mynd aðsend

Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri fengu afhentan rausnarlegan peningastyrk frá Hvítasunnusöfnuðinum, alls 800 þúsund krónur nýverið.

Jóhanna Sólrún Norðfjörð forstöðumaður Hvítasunnusafnaðarins segir að Hvítasunnukirkjan á Akureyri hafi það að markmiði sínu að vera til blessunar fyrir samfélagið okkar. Eitt af því sem kirkjan hefur gert mörg undanfarin ár er að halda árlega Kótelettukvöld með það að markmiði að styðja við góð málefni.

„Mörg góð fyrirtæki leggja okkur lið með því að gefa aðföng eða góðan afslátt. Auk þess gefa fyrirtæki veglega vinninga sem gjarnan veita ómælda ánægju þeirra sem hljóta. Hver miði gildir nefnilega sem happdrættismiði. Sumir kaupa aukamiða til að eiga meiri vinningslíkur og bæta þá jafnframt við það framlag sem rennur til málefnisins hverju sinni.

Vinsælt kvöld og yfirleitt uppselt

Dagskráin er vönduð og hafa þessi kvöld því verið skemmtileg og vinsæl yfirleitt uppselt og biðlisti myndast. Kirkjan gefur alla innkomuna af kvöldinu auk viðbótargjafar. Þau samtök sem kirkjan hefur m.a. styrkt eru Grófin geðrækt, Krabbameinsfélagið á Akureyri, Bjarmahlíð og Samhjálp-Hlaðgerðarkot en að þessu sinni voru það Hollvinasamtök SAK sem fengu að gjöf kr. 800 þúsund krónur.

Jóhannes Bjarnason kynnti starfsemi Hollvinasamtakanna en þessa dagana er m.a. verið að safna fyrir nýjum hitakassa fyrir barnadeildina á sjúkrahúsinu.  Hann kveðst afar þakklátur Hvítasunnukirkjunni fyrir framlagið sem á eftir að koma sér vel.

Nýjast