Færri gistinætur í júní og ágúst en júlí var góður

Tjaldstæðið að Hömrum þykir afar gott.
Tjaldstæðið að Hömrum þykir afar gott.

„Í heildina hefur þetta ár komið ágætlega úr það sem af er,“ segir Ásgeir Hreiðarsson framkvæmdastjóri Hamra, útilífsmiðstöðvar skáta Akureyri. Fyrstu þrjá mánuði ársins var um 100% aukningu á milli ára að ræða og í aprílmánuði var fjöldi þeirra sem gisti á Hömrum svipaður og var árið á undan, „en það var í raun trúlega að mestu fyrir það að það snjóaði hraustlega í byrjun apríl og sá mánuður varð okkur þyngstur í snjómokstri,“ segir hann.

Ásgeir segir að maí hafi verið heldur skárri en sami mánuður árið á undan, með um 20%  aukningu gistinátta samanborið við árið 2023. Snjórinn hefði svo aftur verið að trufla starfsemina þegar kom fram í júní og var töluverður samdráttur á milli ári í þeim mánuði en til viðbótar leiðindaveðurfari  komu tjaldflatir illa undan vetri og urðu skemmdir af völdum kals og bleytu í jörðu langt fram eftir sumri „Júní endaði þannig með um 30% færri  gistinóttum miðað við árið á undan,“ segir hann.

Mikið að gera í júlí en minna í ágúst

Þrátt fyrir að júlí hafi ekki verið sérstakur þegar kemur að veðri norðan heiða segir Ásgeir að hann hafi þó verið skárri í þeim landshluta en víða annars staðar sem varð til þess að gistinætur á Hömrum voru um 90% fleiri en árið 2023. Júlí í fyrra hafi ekki skartað sínu fegursta hvað veður varðar sem endurspeglaðist í fjölda gistinátta það árið. Í ágúst varð 35% samdráttur milli ára en Íslendingar létu í minna mæli en oft áður sjá sig á Hömrum í þeim mánuði. „Í heildina má segja að það sem af er ári hefur aðsóknin verið góð og yfir meðalári.

Aukningin sem hefur orðið á síðustu árum yfir vetrartímann er líka að skila sér með minni sveiflum í heildarfjölda gistinátta milli ára. En þó eru það í raun alltaf þessar 6 til 8 vikur sem Íslendingar nota fyrir sín ferðalög sem stýra því hvort heildarfjöldi gistinátta eykst eða dregst saman milli ára,“ segir Ásgeir.

Hann segir að aukningin í júlí mánuði vegi þungt og í raun megi segja að fjöldi gistinátta á Hömrum þann mánuði sé með því mesta sem sést hafi þegar einungis sé litið til tjaldsvæðisins þar og ekki horft til tímans áður en tjaldsvæðinu að Þórunnarstræti var lokað.

Tvívegis þurfi að opna aukasvæði

„Það er frekar sjalgæft að tjaldsvæði að Hömrum fyllist alveg en nokkra daga í júlí var mjög þétt setið hjá okkur og því þurftum í tvígang að opna aukasvæði sem við höfum bæði efst í Kjarnaskógi og á nýja svæðinu norðan við okkur. Á meðan við vorum að gera þau svæði tilbúin til notkunar þurftum við að vísa nokkrum tjaldgestum frá sem er óalgengt hjá okkur, þó það komi reglulega fyrir að færri komist í rafmagn en vilja,“ segir Ásgeir.

 

Nýjast