20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Húsvíkingar í hringiðu Evrópumótsins í knattspyrnu
Skarpur sagði frá því í síðasta tölublaði að meðal stuðningsmanna íslenska karlalandsliðsins í fótbolta sem etur kappi í Evrópumótinu í Frakklandi um þessar mundir, væri stór og myndarlegur hópur Húsvíkinga, líklega í kringum 90 manns.
Líkt og fyrr er það Pétur Helgi Pétursson (Peddi), sælkeri og alltmögulegt-maður á Hvammi heimili aldraðra á Húsavík, sem leiðir okkur í allan sannleikann um ævintýri Húsvísku stuðningsmannanna. Skarpur sló á þráðinn til Pedda fyrr í vikunni og heyrði í honum hljóðið.
Hópurinn hefur hreiðrað um sig á nokkrum herragörðum í Provance héraði sem er þekkt fyrir víngerðarlist; en notað rútur, lestir og bílaleigubíla til að ferðast um. Leikur íslenska liðsins við Ungverja sem endaði með jafntefli, 1-1 var til að mynda í Marseille og leikurinn örlagaríki gegn Austurríki sem ræður úrslitum um það hvort íslenska liðið kemst upp úr riðli sínum (hans er enn beðið þegar þetta er ritað) „fer“ fram í París sem er í þriggja tíma fjarlægð frá Provance með lest. „Nú erum við sem sagt í höfuðborg matargerðarlistar í Evrópu, Lyon. Það þarf að hlaða batteríin vel,“ sagði Peddi en er þó vart viðræðuhæfur vegna hæsis. „Ég er ekki kominn með röddina, hún fór eiginlega í Ungverjaleiknum,“ segir hann.
Nánar er rætt við Pétur Helga í prentútgáfu Skarps þar sem koma fram dramatískar lýsingar á ólátum ungverskra stuðningsmanna og sögur af stemningunni meðal íslensku stuðningsmannanna sem eru hvervetna þjóð sinni til sóma. /epe.
-Skarpur, 23. júní.