Stóri plokkdagurinn er á sunnudaginn

Plokkdagurinn er n.k. sunnudag, veðurspáin er góð svo þá verður nú heldur betur lag
Plokkdagurinn er n.k. sunnudag, veðurspáin er góð svo þá verður nú heldur betur lag

Stóri plokkdagurinn verður haldinn sunnudaginn 27. apríl og eru Akureyringar hvattir til að hreinsa rusl í sínu nærumhverfi.

Stóri plokkdagurinn verður haldinn sunnudaginn 27. apríl um land allt og eru Akureyringar hvattir til að hreinsa (plokka) rusl í sínu nærumhverfi.

Plokk er frábær útivera og gefandi verkefni sem eflir núvitund og gerir umhverfinu gott enda er ýmislegt sem kemur í ljós þegar snjórinn hverfur á vorin. Þar að auki kostar plokkið ekkert og kallar ekki á búnað eða tæki nema þá helst ruslapoka og hanska. Plokkarar eru vinsamlega beðnir um að nota glæra ruslapoka í plokki sínu til að auðvelda flokkun og urðun.

Plokkarar eru jafnframt beðnir um að tilkynna um þá staði þar sem pokar eru skildir eftir í gegnum ábendingagátt Íbúaapps sveitarfélagsins, þar sem hægt er að taka mynd með nákvæmri staðsetningu, eða á netfangið valur.thor@akureyri.is. Í gegnum ábendingagátt er einnig tilvalið að benda sveitarfélaginu á svæði sem þarf að hreinsa sérstaklega eða koma með ábendingar um annað það sem betur má fara.

Facebook-hópurinn Plokk á Akureyri er sniðugur vettvangur til að hafa samband við aðra plokkara, merkja sér svæði til að hreinsa og láta vita hvernig gengur í máli og myndum.

Stjórnendur og starfsfólk stofnana og fyrirtækja á Akureyri eru hvött til að plokka í kringum sína vinnustaði í vikunni og hita þannig upp fyrir stóra daginn.

Stærri hópar sem hafa áhuga á að plokka er bent á að hafa samband við umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar til að fá ráðleggingar um svæði sem þörf er á að plokka. Hægt er að senda tölvupóst á netfangið valur.thor@akureyri.is.

Nokkur góð ráð:

  • Plokkum og hreyfum okkur í leiðinni.
  • Klæðum okkur eftir veðri.
  • Notum hanska og tangir ef þær eru til. Hægt að fá lánaðar tangir á Amtsbókasafninu á Akureyri og á Umhverfismiðstöð Rangárvöllum (takmarkað magn í boði).
  • Gæta fyllstu varúðar og brýna fyrir börnum að láta nálar og aðra hættulega hluti vera, en tilkynna til foreldra eða umsjónarmanna.
  • Virkjum fjölskylduna, vini og nágranna en hver á sínum hraða.

Nýjast