Akureyrarklíníkin fær liðsauka

Unnsteinn Ingi Júlíusson heimilislæknir
Unnsteinn Ingi Júlíusson heimilislæknir

Akureyrarklíníkin er samstarfsverkefni HSN og SAk og rekur þverfaglega göngudeildarþjónustu fyrir sjúklinga með ME, long-covid og síþreytu, hver sem orsökin kann að vera. Deildin vinnur samkvæmt. tilvísunum frá heilsugæslunni. Helstu verkefni eru mat, ráðgjöf og meðferðarráðleggingar. Við deildina starfa félagsráðgjafar, iðjuþjálfi, sjúkraþjálfari, hjúkrunarfræðingur og læknar.

Nú hefur Akureyrarklíníkin fengið liðsauka, en Unnsteinn Ingi Júlíusson heimilislæknir hóf hlutastarf þar í þessum mánuði. Unnsteinn lauk námi í læknadeild HÍ árið 1996 og varði kandídatsári á SAk (áður FSA) og tveimur árum til viðbótar sem deildarlæknir á ýmsum deildum sjúkrahússins. Hann lauk sérfræðimenntun í Noregi og við heimkomu hóf hann störf á heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, síðar HSN. Þar var hann yfirlæknir árin 2005-2021. Hann hefur verið handleiðari sérnámslæknis, fyrirlesari í heimilislækningum í læknadeild HÍ og er nýskipaður umsjónarlæknir sjúkraflutninga á svæði HSN.

Unnsteinn er frá Patreksfirði, vann í fiski, á sjó og í byggingariðn á sinni vegferð. Hann er hamingjusamlega kvæntur hjúkrunarfræðingi og á 3 börn og 8 barnabörn.

Nýjast