Tryggvi einn sá efnilegasti í heimi
Þrír íslenskir körfuknattleiksmenn eru á lista Eurobasket yfir efnilegustu leikmenn heims utan Bandaríkjanna sem fæddir eru árið 1997. Um er að ræða þá Kára Jónsson, Kristin Pálsson og Tryggva Snæ Hlinason sem komast allir á topp 100 listann. Kári er þeirra efstur, í 20. sæti, Kristinn er í 70. sæti og Tryggvi Snær í 93. sæti. Kári var einn besti leikmaður Dominos-deildarinnar á síðustu leiktíð þegar hann fór mikinn með Haukum þrátt fyrir ungan aldur. Hann mun í vetur leika í Bandaríkjunum með liði Drexel-háskólans sem staðsettur er í ríkinu Pennsylvania. Kristinn fór fyrir ári síðan vestur um haf og spilaði með Marist-háskólanum í New York fylki, en áður spilaði hann samhliða náði hjá liði Stella Azzura á Ítalíu. Tryggvi Snær leikur með Þór Akureyri en hefur meðal annars fengið samningstilboð frá spænska liðinu Valencia. Hann er í íslenska landsliðinu sem leikur nú í undankeppni Evrópumótsins. Greint var frá þessu á mbl.is