„Villtustu handrit geta orðið að veruleika“
Rétt í þessu lauk þætti í Ríkissjónvarpinu þar sem kynnt voru til sögunnar þau lög sem munu keppa um það að verða fulltrúar Íslands í Eurovision í ár. Það er því komið á hreint að Húsavíkingar munu eiga fulltrúa í Söngvakeppni sjónvarpsins en Ágúst Þór Brynjarsson mun flytja lagið Eins og þú (e. Like You).
Ágúst er er fæddur og uppalinn á Húsavík og bjó þar til 18 ára aldurs en er í dag búsettur á Akureyri. Lagahöfundar eru Ágúst sjálfur, Hákon Guðni Hjartarson og Halldór Gunnar Pálsson Fjallabróðir.
Ágúst segir í samtali við Vikublaðið að lagið fjalli um tilfinningarnar sem bærast í brjósti manns þegar ástin bankar að dyrum.
Stór draumur að rætast
„Lagið fjallar um það þegar þér líður eins og þú hafir unnið í ástar lottóinu, þú bara trúir ekki að þú fáir að elska manneskjuna þér við hlið. Við Hákon erum mjög ánægðir með að hafa náð að halda sömu skilaboðum í báðum textum. Hvort sem þú hlustar á lagið á ensku eða íslensku þá er tilfinningin sú sama. Að verða ástfanginn og að finna þessa þakklætis og sigurtilfinningu er eitthvað sem margir geta tengt við. Þú vilt hvergi annarsstaðar vera og þú finnur og veist að það er „enginn eins og þú” og þau forréttindi að „get to love somone like you”. Þetta er algjör Eurovision partý sprengja,“ segir Ágúst og bætir við að gamall draumur sé að rætast við þátttöku í Söngvakeppninni.
Endurvakti gamalt samstarf
„Þegar ég sá í haust að Rúv hafði opnað fyrir innsendingar á lögum í Söngvakeppnina þá heyrði ég strax í Hákoni Guðna,“ segir Ágúst en þeir félagarnir hafa áður unnið saman við að semja tónlist þegar þeir voru báðir búsettir á Akureyri.
„Hákon átti til demo af svona Eurovision fíling sem við ákváðum að taka alla leið, lagið varð síðan að því sem það er í dag þegar við fengum reynsluboltann og stórkostlega lagahöfundinn hann Halldór Gunnar til liðs við okkur. Hann tók þetta klárlega á næsta stig og sigldi þessu heim með okkur,“ segir Ágúst og viðurkennir að hafa fagnað innilega þegar hann fékk að vita 13. nóvember sl. að lagið þeirra komst í gegn um nálarauga dómnefndar fyrir Söngvakeppnina, enda hafi hann alltaf verið mikill aðdáandi keppninnar.
Alveg ruglaðir Eurovision aðdáendur
„Ég get ekki lýst því þegar Rúnar Freyr Gíslason, framkvæmdastjóri keppninnar hringdi í mig og óskaði mér til hamingju með að vera kominn inn í Söngvakeppnina. Eurovision og Söngvakeppnin hefur alltaf verið rosa stór partur í mínu lífi. Ég og systkini mín, við erum alveg ruglaðir Eurovision aðdáendur og þetta var alltaf heilagur tími þegar ég var að alast upp,“ segir Ágúst stoltur og bætir við að hann hafi t.d. lært serbneska sigurlagið árið 2007, Molitva, utan að og ég kunni það ennþá. „Við erum með ártölin og sigurlögin og þetta helsta alveg allt á lás svo að þetta er bara heldur betur stór draumur að rætast.“
Story of Fire Saga
Húsavík kom sér á kortið fyrir fáeinum árum sem Eurovision-bær Íslands þegar ævintýrið í kringum Netflix mynd Will Ferrels; Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga stóð sem hæst en myndin var eins og frægt er orðið tekin að stórum hluta upp á Húsavík. Ágúst segir að hann tengi mjög mikið við myndina enda sé aðalpersóna hennar, leikin af Will Ferrel Húsvíkingur sem elst upp með þann draum í maganum að taka þátt í Eurovision.
Myndin gæti bókstaflega hafa verið skrifuð um mig, allavega fyrstu kaflarnir. Við sjáum til hvað gerist á næstu vikum,“ segir Ágúst glettinn og vísar til þess að þrátt fyrir að draumar persónu Will Ferrels í myndinni um að taka þátt í Eurovision hafi vissulega ræst, þá hafi óheppilegir atburðir fylgt í kjölfarið.
„Þessi mynd er rosalega lík minni æsku, þ.e.a.s. strákur frá Húsavík alltaf spilandi heima á bæjarbarnum og bæjarhátíðunum, með stóra drauma um að gerast tónlistarmaður og söngvari,“ segir Ágúst léttur í bragði og bætir við að hann hlakki til ævintýrisins sem bíður hans.
Vill gera Norðlendinga stolta
„Næstu vikur og mánuðir verða rosalega skemmtilegir og spennandi. Ég ætla gera mitt allra besta til að gera Húsavíkinga og Akureyringa þar sem ég er búsettur nú, stolta af mér og svo vonandi allt Ísland,“ segir Ágúst og bætir við að í næstu viku muni koma út myndband við lagið sem mikil vinna hafi verið lögð í.
„Ég tók þetta alla leið og gerði tónlistarmyndband fyrir lagið en það var skotið bæði í Reykjavík og heima á Húsavík. Mig langaði að nýta þá tengingu sem Eurovision hefur við heimabæinn minn Húsavík og þá staðreynd að ég var bara á sama stað og hann Lars, ( Will Ferrel ) og sýna að villtustu handrit geta orðið að veruleika,“ segir Ágúst að lokum.