Fáránleiki nýja ársins
Egill P. Egilsson skrifar
Það er engu líkara en að mannskepnan sé komin með einhverja helsjúka áráttu fyrir því að skapa sér hefðir; sem eru hver annarri vitlausari.
Ein þessara hefða er að strengja ármótaheit sem er sök sér en undanfarin ár virðist pöpullinn keppast við að gera þessi heit að einhverju heilsubulli og neita sér um allar lífsins unaðssemdir í janúar, þessum leiðinlegasta mánuði ársins.
Eftir hátíðarnar, þegar við höfum notið góðra máltíða, samveru með fjölskyldu og vinum og jafnvel fengið smá frí frá vinnu, þá ákveðum við að byrja nýja árið með því að setja okkur strangar reglur og takmarkanir. Hvaða árátta er þetta eiginlega?
Eins og janúar sé ekki nógu erfiður fyrir. Dagarnir eru stuttir, veðrið er kalt, dómsdags myrkur og þá á ég ekki bara við í sálartetrinu þegar visareikningurinn kemur! Það er nógu erfitt að komast aftur í rútínu eftir hátíðarnar þó við séum ekki að pína okkur bláedrú, spriklandi í líkamsræktarsölum með vindgang af baunafæði. Fyrir utan það að markmiðin eru svo óraunhæf og ómanneskjuleg að þau eru dæmd til að mistakast og sjálfsmyndin brotnar í þúsund mola. Við erum ekki vélmenni sem geta breytt lífsstíl sínum á einni nóttu. Við þurfum tíma til að aðlagast og finna jafnvægi.
En að öllu gríni slepptu væri ráð að einbeita okkur að því að njóta lífsins og finna gleði í litlu hlutunum. Augnablikin eru dýrmæt og koma aldrei aftur. Við getum sett okkur markmið yfir tíma sem eru raunhæf og uppbyggileg, eins og að eyða meiri tíma með fjölskyldu og vinum, læra eitthvað nýtt og áhugavert og virkja áhugamálin sem við elskum.
Það er kominn tími til þess að hætta vera alltaf í látlausri keppni við allt og alla. Við getum tekið lífinu með ró og umfram allt, leyft okkur að njóta þess á meðan það varir. Janúar er þegar nógu erfiður mánuður, svona eins og skrítni frændinn sem er alltaf of fullur í fjölskylduboðum svo af hverju að gera hann enn erfiðari með því að setja okkur þessi leiðinlegu áramótaheit?
Lífið er of stutt til að eyða því í að neita okkur um lífsins munað. Við ættum að leyfa okkur að njóta þess sem við elskum og finna gleðina í hverjum degi. Þannig getum við byrjað nýja árið með jákvæðni og hamingju, frekar en með álagi og vonbrigðum.
Egill P. Egilsson