Fræðslu- og lýðheilsuráð skoðar notkun á Hreyfikorti eldri borgara um mitt ár
Fræðslu- og lýðheilsuráð Akureyrar mun um mitt þetta ár, 2025 taka stöðuna á notkun Hreyfikorts og fara yfir kosti og galla þess. Ráðið mun þá leita álits öldungaráðs Akureyrarbæjar um hvernig til hefur tekist.
Hreyfikort veitir þátttökurétt í heilsuverkefni Akureyrarbæjar Virk efri ár, auk ótakmarkaðs aðgangs að sundlaugum, skautahöll og skíðasvæði Akureyrarbæjar. Hreyfikortið gildir í ár frá kaupum og er árgjald 40 þúsund krónur.
Öldungaráðið fjallaði um hreyfikortið á fundi nýverið og bendir á að Hreyfikort eldri borgara hafi verið til umræðu og afgreiðslu í fræðslu- og lýðheilsuráði svo og bæjarráði í nóvember síðastliðnum. Ákvörðun hafi síðan verið tekin í bæjarstjórn Akureyrarbæjar.
Allt gert án aðkomu öldungaráðs
„Allt var þetta gert án aðkomu öldungaráðs sem er ráðgefandi samráðsvettvangur og „virkur þátttakandi í allri stefnumörkun málaflokksins" eins og stendur í samþykkt ráðsins sem var samþykkt af bæjarstjórn 21. nóvember 2023. Öldungaráð átelur þessi vinnubrögð harðlega og óskar þess að þau verði ekki endurtekin. Til að tryggja það telur ráðið eðlilegast að fulltrúi frá ráðinu sitji fundi nefnda og ráða hjá bænum þegar málefni eldri borgara eru þar til umræðu og afgreiðslu,“ segir í bókun öldungaráðsins.
Bæjarráð þakkar góðar ábendingar öldungaráðs og vonast til að Hreyfikortið muni efla hreyfingu 67 ára og eldri í sveitarfélaginu.