Leiðsögn um helgina í Listasafninu á Akureyri

Leiðsögn um helgina í Listasafninu á Akureyri
Leiðsögn um helgina í Listasafninu á Akureyri

Um helgina verður boðið upp á tvenns konar leiðsögn um fjórar sýningar Listasafnsins á Akureyri. Á laugardaginn kl. 15 verður leiðsögn um sýningar Fríðu Karlsdóttur, Ekkert eftir nema mýktin, og Jónasar Viðars, Jónas Viðar í safneign. Aðgangur er innifalinn í miðaverði. Á sunnudaginn kl. 11-12 mun Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri fræðslu og miðlunar, stýra fjölskylduleiðsögn og segja börnum og fullorðnum frá sýningunni Átthagamálverkið: Á ferð um Norðausturland liðinnar aldar og sýningu Sólveigar Baldursdóttur, Augnablik – til baka. Að lokinni leiðsögn er gestum boðið að búa til sitt eigið listaverk, innblásið af verkum sýninganna. Aðgangur á fjölskylduleiðsögnina er ókeypis í boði Norðurorku sem styrkir sérstaklega safnkennslu og fræðslu fyrir börn og fullorðna í Listasafninu.

 

Fríða Karlsdóttir
Ekkert eftir nema mýktin

Fríða Karlsdóttir útskrifaðist af myndlistarbraut Gerrit Rietveld

Academie í Amsterdam í Hollandi 2020. Hún býr og starfar á Akureyri, þar sem hún er hluti af sjálfstæða listhópnum Kaktus, sem stendur fyrir margs konar menningarstarfsemi í Ketilhúsinu á neðstu hæð Listasafnsins.

Fríða vinnur með sögusagnir í gegnum blandaða miðla, vídeóverk, skúlptúra, textaverk og ýmiss konar handverk. Verk hennar líkjast oft náttúrulegum fyrirbærum, þau innihalda sterkar táknmyndir og þannig dramatíserar hún hversdagsleikann og segir frá einlægum upplifunum. Fríða hefur sýnt bæði hér á landi og erlendis.


Jónas Viðar
Jónas Viðar í safneign


Jónas Viðar Sveinsson (1962-2013) stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri 1983- 1987 og framhaldsnám við Accademia di Belle Arti di Carrara á Ítalíu 1990-1994, þar sem hann útskrifaðist með hæstu einkunn. Eftir nám flutti Jónas aftur til Akureyrar þar sem hann var með vinnustofu í Listagilinu og starfrækti Jónas Viðar Gallerí í nokkur ár, þar sem nú er Mjólkurbúðin, salur Myndlistarfélagsins.


Jónas var virkur í sýningahaldi og kenndi auk þess við Myndlistaskólann á Akureyri og rak um tíma sinn eigin skóla. Síðar flutti hann til Reykjavíkur og vann áfram að myndlist og rak Jónas Viðar Gallerí í porti við Laugaveginn. Hann hélt yfir 40 einkasýningar á Íslandi og erlendis og tók þátt í fjölda samsýninga.

Stök fjöll, eyjur og vötn eru áberandi í málverkum Jónasar Viðars, en einnig mannslíkaminn í eldri verkum.


Átthagamálverkið: Á ferð um Norðausturland liðinnar aldar

Hér munda pensilinn jafnt lærðir listamenn sem sjálfmenntað áhugafólk og skapa verk í persónulegu samtali við staði og minningar. Á sýningunni má meðal annars sjá æskuverk þjóðþekktra listamanna auk verka eftir fólk af ólíkum stéttum sem sumt hóf fyrst að mála á efri árum. Sumir eru ástsælir listamenn í sinni heimabyggð, aðrir einfarar sem hafa farið eigin leiðir í listinni.

Verkin sýna heimahaga, æskuslóðir eða staði sem staðið hafa þessum listamönnum nærri.

Í verkunum er varðveitt saga ólíkra einstaklinga, en á sýningunni eru verk eftir um þrjátíu manns frá Norðausturlandi. Á tuttugustu öld fluttist fólk úr sveitum í þéttbýli. Þessir búferlaflutningar eru samofnir breytingum á sviði menntunar og menningar, verslunar og þjónustu, atvinnu- og efnahagsþróunar sem og félagslegra tengsla. Átthagamálverkin standa eftir eins og tilraun til þess að hægja á þessari framrás, stöðva tímann, fanga eitthvað áður en það verður um seinan.


Sýningin er unnin í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur.


Sólveig Baldursdóttir
Augnablik – til baka


Sólveig Baldursdóttir nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1980-1982 og lauk námi við skúlptúrdeild Det Fynske Kunstakademi í Danmörku 1987. Hún bjó lengi í Carrara á Ítalíu og vann þar að list sinni við Studio Niccoli. Sólveig rak vinnustofu á Akureyri 1995-2001, var bæjarlistamaður Akureyrar 1999 og hlaut starfslaun myndlistarmanna 2001. Hún hefur unnið fyrir ýmsar opinberar stofnanir, t.d. Útflutningsverðlaun forseta Íslands og Utanríkisráðuneytið. Útilistaverk hennar má sjá víða um Ísland og einnig erlendis.


„Náttúran hefur alltaf verið mér og minni sköpun mikilvæg. Hún veitir öryggi og fótfestu í allri sinni mildi og fegurð, en er jafnframt óútreiknanleg og vægðarlaus. Margar minningar skjóta upp kollinum þegar hendinni er strokið eftir steininum, hvort sem þær koma frá Danmörku við granítið eða Ítalíu með marmaranum. Þungi undirtónninn í steininum teygir sig í áttina að hinu fíngerða og smáa í náttúrunni, mosanum og baldursbránni sem vaxa óhindrað í gegnum skin og skúrir þangað til tíma þeirra er lokið.“

Nýjast