Karlakór Akureyrar-Geysir gefur út nýja plötu á Spotify
„Það er mikill fengur að þessari plötu og við finnum fyrir miklum áhuga,“ segir Benedikt Sigurðarsson formaður Karlakórs Akureyrar-Geysis sem nýverið setti í spilum nýja plötu á Spotify. Titill plötunnar er Karlakór Akureyrar-Geysir 100 ár. Á plötunni eru alls 9 lög sem hljóðrituð voru í nóvember 2023. Kórinn fagnaði 100 ára samfelldu kórastarfi á Akureyri árið 2022.Söngstjóri Karlakórs Akureyrar-Geysis er Valmar Väljaots sem tók við kórnum árið 2021
„Á plötunni má finna létt lög og hefðbundna karlakóraklassík með svæðisbundnu ívafi því við leitum fanga hjá tón- og ljóðkáldum úr Eyjafirði. Það eru lög eftir Jóhann Ó Haraldsson og Áskel Jónsson á plötunni og textar eftir Davíð Stefánsson,“ segir Benedikt. Nefnir hann sem dæmi að á plötunni er að finna lag Jóhanns, Sigling inn Eyjafjörð við texta Davíðs, en eftir því sem næst verður komist er það lag ekki til í aðgengilegri útgáfu í flutningi karlakórs og einsöngvara.
Tveir nýir einsöngvarar eru kynntir til sögunnar, tenórarnir Arnar Árnason og Magnús Hilmar Felixson. „Þeir hafa ekki verið hljóðritaðir með kórnum áður en skila sínu með miklum sóma,“ segir Benedikt. Hljóðfæraleikur á plötunni er í höndum Valmar Väljaots sem leikur á píanó, Halldór G Hauksson slagverk, Kristján Edelstein gítar og Pétur Ingólfsson spilar á bassi. Upptökur og hljóðvinnsla var í höndum Kristjáns Edelstein. Lokavinnsla var í höndum Hauks Pálmasonar.
Kórastarf á Akureyri á sér ríka hefð. Karlakórinn Geysir var stofnaður fyrir ríflega einni öld, árið 1922. Þessi mynd af kórnum er frá árinu 1930.
Höldum menningarverðmætum á lofti.
Benedikt segir starfsemi Karlakórs Akureyrar -Geysis öfluga um þessar mundir. Auk þess að hafa hljóðritað og komið nýju plötunni á Spotify er unnið að því að fara yfir og skoða eldra efni sem til er úr fórum kórsins. Karlakór Akureyrar -Geysir varð til við samruna tveggja samnefndra kóra árið 1990 og hefur kórinn gefið út tvo geisladiska, „Vorklið“ árið 1997 og „Á ljóðsins vængjum“ árið 2005. Fyrir sameiningu höfðu kórarnir einnig hljóðritað Lp plötur og er nú verið að fara yfir þær í því skyni að koma yfir í nýjan búning þannig að efnið verði almenningi aðgengilegt. „Við teljum mikilvægt að fólk hafi aðgang að þessu efni, þetta eru mikil menningarvermæti og því er mikið til vinnandi að fara yfir og kanna hvað hægt er að gefa út,“ segir hann. „Við kórfélagar eru komnir í ágætis gír eftir að starfsemin má segja hafi lengið niðri meðan heimsfaraldur geysaði og munum halda okkar öfluga starfi áfram.“
Rík sönghefð í bænum
Benedikt segir kórastarf á Akureyri eiga sér ríka og glæsilega hefð sem rekja megi til aldamótanna kringum árið 1900, en fyrir þau var til að mynda starfandi í bænum Söngfélagið Hekla sem hélt í hljómleikaferð til Noregs árið 1905. Slíkt var einsdæmi á þeim tíma. Karlakórinn Geysir var stofnaður árið 1922 og Karlakór Akureyrar árið 1929. Báðir héldu úti kröftugu söngstarfi sem setti svip á bæjarlífið í áratugi. Farið var að ræða sameiningu kóranna þegar kom fram á níunda áratuginn sem formlega var frágengin í október árið 1990.
Valmar Väljaots tók við stjórnartaumum hjá Karlakór Akureyrar- Geysi árið 2021