Tunnuskipti í síðustu hverfum bæjarins framundan
Sem kunnugt er standa yfir breytingar á sorphirðukerfi og framundan eru tunnuskipti í síðustu hverfum bæjarins. Til að tryggja sem hraðasta framkvæmd verða núverandi tunnur fyrir almennan úrgang nýttar, og ílátum bætt við eftir þörfum fyrir lífrænan úrgang, pappír og plast. Í sumum tilfellum gætu heimili tímabundið fengið fleiri tunnur en nauðsynlegt er. Mikilvægt er að tryggja að allar tunnur séu staðsettar eða festar þannig að þær fjúki ekki.
Þegar dreifingu íláta í öll hverfi lýkur, verður farið í að skipta út eldri tunnum, setja upp nýjar, fjarlægja óþarfar tunnur og koma til móts við séróskir íbúa. Eldri pappírs- og plasttunnur, sem standa fullar, verða fjarlægðar og tæmdar samtímis afhendingu nýrra tunna. Íbúar eru hvattir til að nýta grenndargáma og gámasvæði fyrir pappír og plast, auk þess að hreinsa til í tunnugerðum þar sem úrgangur hefur safnast upp.
Ástæða breytinganna eru ný lög um hringrásarkerfi. Samkvæmt þeim er bænum nú skylt að safna fjórum úrgangsflokkum við hvert heimili.