Trninic framlengir við KA
KA sem eru nýkrýndir deildarmeistarar í Inkassodeild karla í fótbolta hafa þegar hafið undirbúning fyrir átökin í Pepsideildinni næsta sumar og afa verið að ganga frá samningum við bestu leikmenn liðsins.
Aleksandar Trninic hefur skrifað nú undir nýjan tveggja ára samning við félagið en áður hafði Guðmann Þórisson gert nýjan yveggja ára samning við KA. Aleksandar kom til félagsins á vormánuðum þessa árs og lék með KA í Inkassodeildinni í sumar.
Aleksandar þótti spila afar vel í sumar, sérstaklega þegar líða fór á tímabilið. „Hann vann ótal marga skallabolta og tæklingar inn á miðjunni fyrir KA liðið og barðist eins og ljón í hverjum einasta leik,“ segir í tilkynningu á heimasíðu KA.
Aleksandar skoraði fjögur mörk í þeim 19 leikjum sem hann spilaði í deildinni og fékk 6 gul spjöld og eitt rautt.
„Það er mikið gleðiefni að Aleksandar hafi skrifað undir nýjan samning enda áhersla lögð á það að halda því sterka liði sem við erum með saman fyrir átökin í Pepsi-deildinni á næsta ári,“ segir jafnframt í tilkynningunni.