Þingeyjarsveit - Nýr snjótroðari í Kröflu

Á myndinni má sjá Ragnheiði Jónu sveitastjóra afhenda Andra lyklana að nýja snjótroðaranum, hjá þeim…
Á myndinni má sjá Ragnheiði Jónu sveitastjóra afhenda Andra lyklana að nýja snjótroðaranum, hjá þeim stendur Anton Freyr Mynd thingeyjarsveit.is

Þingeyjarsveit hefur fest kaup á snjótroðara til að nota á skíðasvæðinu í Kröflu. Íþróttafélagið Mývetningur mun hafa umsjón með notkun tækisins, en félagið hefur unnið gríðarlega mikilvægt starf síðustu ár við að byggja upp öflugt skíðastarf á svæðinu.

Andri Karlsson verður umsjónarmaður og ábyrgðaraðili fyrir snjótroðarann. Gamli snjótroðari Mývetnings var kominn á tíma og með tilkomu nýja snjótroðarans verður hægt að tryggja enn betri aðstæður fyrir skíðafólk, hvort sem það stundar alpagreinar eða skíðagöngu.

„Þetta er stórt skref fyrir okkur í Mývetningi og fyrir allt skíðastarfið í Mývatnssveit. Þessi snjótroðari er nýrri og áreiðanlegri og gerir okkur kleift að bjóða áfram upp á fyrsta flokks aðstæður fyrir alla sem vilja njóta vetraríþrótta,“ segir Anton Freyr Birgisson, formaður Mývetnings.

Með þessu framtaki styrkir Þingeyjarsveit innviði sína fyrir vetraríþróttir og stuðlar að áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu. Vonast er til að þetta muni auka áhuga íbúa og ferðamanna á að nýta skíðasvæðið í Kröflu til hins ýtrasta.

 

Nýjast