Frá Þýskalandi til Hollands til Akureyrar

Anna Christin Lauenburger, stúdent í Heimskautarétti við Lagadeild skólans.
Anna Christin Lauenburger, stúdent í Heimskautarétti við Lagadeild skólans.

„Það er ótrúlega auðgandi og fjölbreytt upplifun að stunda nám í Heimskautarétti við Háskólann á Akureyri. Ég hef haft tækifæri til að rannsaka flókin mál tengd umhverfisrétti, stefnumótun og stjórnsýslu í samhengi við heimskautasvæðin,“ segir Anna Christin Lauenburger, stúdent í Heimskautarétti við Lagadeild skólans.

Fjölbreytileiki sjónarmiða greinir að Önnu mati námið frá öðrum námsleiðum. Með stúdentum víðs vegar að úr heiminum sem deila innsýn, áskorunum og reynslu, hefur það aukið skilning hennar á viðfangsefnunum. Umræðurnar í tíma snerta oft á alþjóðasamstarfi, sjálfbærri þróun og flóknum lagarömmum sem stýra Norður- og Suðurskautinu.

Leiðin í Heimskautarétt

Mikill áhugi Önnu á umhverfismálum og vilji til að dýpka skilning sinn á heimskautasvæðunum var drifkrafturinn á bakvið að velja námið. Hún útskýrir einnig hvernig tækifærið kom upp: „Á meðan ég stundaði BA-nám í alþjóðasamskiptum við Háskólann í Groningen í Hollandi, hafði ég tækifæri til að taka aukagrein í námi varðandi heimskautin. Prófessor sem kenndi mér í náminu í Hollandi ráðlagði mér að skoða Heimskautaréttaráfangann við Háskólann á Akureyri, og það fannst mér passa fullkomlega við fræðilegan áhuga minn. Aukagreinin gaf mér svo einstaka innsýn í umhverfis-, pólitískar og vísindalegar áskoranir sem heimskautin standa frammi fyrir, og ég áttaði mig þá á að ég vildi kanna þetta svið frekar.“

Skilaboð frá unga fólkinu

Í desember bauðst henni tækifæri til að taka þátt í vinnustofu sem Rannsóknarstofur heimskautanna í Kóreu og Kobe háskóla í Japan skipuleggja (Kobe PCRC/KOPRI). „Ég ákvað að sækja um og mér til mikillar gleði fékk ég styrk til að taka þátt og auk þess var mér boðið að halda stutta ræðu á viðburðinum, sem er mikill heiður.

Það gaf mér tækifæri til að tala við diplómata, vísinda- og fagfólk á sviði stjórnsýslu Suðurskautsins og koma skilaboðum ungs fólks á framfæri. Ég fann fyrir bæði auðmýkt og styrk við tækifærið, þar sem þetta var sjaldgæft tækifæri til að láta rödd mína heyrast og verða viðurkennd af sérfræðingum á þessu sérhæfða sviði. Ég er ótrúlega þakklát fyrir að Kobe/PCRC og ArCSII styrktu þátttöku mína og veittu vettvang fyrir ungt fólk til að taka þátt í mikilvægu samtali um framtíð stjórnunar á heimskautasvæðum.“ Hér getur þú hlustað á ræðuna hennar.

Tileinkað heimskautavísindum

„Ég kem frá Þýskalandi og stunda núna annað ár í MA-námi í Heimskautarétti við Háskólann á Akureyri, með áherslu á umhverfismál og heimskautasvæðin bæði. Í gegnum nám mitt og reynslu er ég ákveðin í að leggja mitt af mörkum í vísindarannsóknum og stefnumótun á heimskautasvæðum, með áherslu á umhverfisáskoranir og lagaramma sem móta Norður- og Suðurheimskautið,“ segir Anna um framtíðaráform sín.

Anna segir að lokum að vegferðin í gegnum Heimskautarétt hafi verið innblástur fræðilega og faglega. „Ég er spennt fyrir framtíðinni og möguleikanum á að hafa jákvæð áhrif á sviði stjórnsýslu heimskautasvæða.“

 

 

Nýjast