Lokaorðið ,,Megir þú lifa áhugaverða tíma"

Hreiðar Eiriksson átti Lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag
Hreiðar Eiriksson átti Lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag

Þegar Kínverjar til forna vildu óska fjendum sínum ills óskuðu þeir þess að fjendurnir lifðu áhugaverða tíma. Sjálfur hef ég aldrei skilið þetta, því ég hef alltaf óskað þess að fá að lifa áhugaverða tíma. Áhugaverðum tímum fylgja langar nætur, mikil spenna og erfiðar áskoranir. Aðeins með því að mæta slíku geta menn kynnst sjálfum sér og öðlast styrk og þroska.

Þegar ég starfaði í friðargæslu í Bosníu árið 2002 kynntist ég fólki frá mörgum menningarheimum, kynnti mér sögu þeirra og viðhorf. Ég eignist góða vini frá Rússlandi og kynntist aðstæðum þeirra og viðhorfum. Það var þá sem ég áttaði mig á því að fram undan væru áhugaverðir tímar og ef ekki yrði sýnd aðgát, væri óhjákvæmilegt að heimsófriður yrði eitt af því sem ég þyrfti að upplifa áður en yfir lyki.

,,...og við lékum okkur að orðum.."

Hinn vestræni heimur hefur talið sér trú um að mannkynið hafi þroskast svo mikið að óhugsandi væri að við kæmum okkur enn einu sinni í sömu stöðu og leiddi til tveggja fyrstu heimsstyrjaldanna. Það væri þess vegna allt í lagi þótt við gerðum eitthvað skemmtilegt. Við höfum varið miklum tíma og fjármunum í að búa til nýjan raunveruleika og leika okkur að því að búa til ný orð ,,sem urðu lifandi ef sögð voru rétt".

,,Ó vakna þú mín Þyrnirós"

Nú höfum við vaknað upp og áttað okkur á að við stöndum frammi fyrir því sem alltaf var óumflýjanlegt. Þeirri áskorun að afstýra ófriði eftir að hann er í rauninni farinn af stað. Það er ekki létt verk og því miður virðist mér fæstir málsmetandi leiðtogar vera meðvitaðir um ábyrgð sína og mikilvægi orða þeirra og gerða.

Skynsemi og yfirvegun.

Hershöfðingi einn var eitt sinn spurður, hvers vegna hann væri sigursæll. Hann sagði að þegar ófriðurinn geisaði og allt væri sturlað, þá væri nauðsynlegt að varðveita friðinn í höfði sínu. Þetta þurfa ráðamenn þjóða heims að tileinka sér. Ef ófriður og sundrung er allt í kringum þá, eiga þjóðir heims allt undir því að þeir sýni rósemi og yfirvegun í orði og æði. Hófstilling í yfirlýsingum og yfirveguð tjáning afstöðu og sjónarmiða er lykillinn að því að halda samtali gangandi og án samtals verður ekki friður. Ég mundi gjarnan vilja sjá ráðamenn og leiðtoga Íslands rækta og nýta skynsemi sína, yfirvegun og innri ró andspænis hverju því sem kann að koma upp í samskiptum þjóða og þjóðarleiðtoga. Glannalegar yfirlýsingar í hita leiksins eiga ekki við og gera illt verra.

Það eru áhugaverðir tímar. Slíkir tímar kalla á að við varðveitum og styrkjum dygðir okkar og bælum niður brestina. Ég legg til að við höldum tryggð við alþjóðalög, íslensk gildi og siðferði en gera það af virðingu og skynsemi.

Nýjast