NPA miðstöð opnuð á Akureyri
„Þetta er góður áfangi og við horfum björtum augum til framtíðar. Með opnun miðstöðvarinnar opnast enn betri tækifæri en áður til að veita félagsfólki á Norðurlandi öflugri þjónustu en áður,“ segir Breki Arnarsson ráðgjafi hjá NPA miðstöðinni á Akureyri, en hún var opnuð í liðinni viku.
Breki er menntaður vinnusálfræðingur og hefur hann starfað sem NPA ráðgjafi hjá miðstöðinni frá því í janúar árið 2023. „Það hefur lengi verið markmið NPA miðstöðvarinnar að opna útibú á Akureyri. Þegar ég ræddi við minn yfirmann að ég stefndi að því að flytja norður til Akureyrar kom sú umræða upp í kjölfarið hvort ég hefði áhuga fyrir að taka þátt í opnun úibús miðstöðvarinnar þar í bæ,“ segir Breki.
Fékk hluta af hæð við Hafnarstræti 97 undir starfsemina
Við tók leit að hentugu húsnæði sem fannst eftir nokkra leit í Hafnarstræti 97, á sjöttu hæð hússins þar sem Grófin geðrækt er til húsa. NPA miðstöðin fékk hluta af hæðinni fyrir sína starfsemi, þar er aðstaða til að taka á móti fólki, halda fundi og sinna fræðslu. Félagsfólk NPA miðstöðvarinnar getur einnig nýtt aðstöðu NPA miðstöðvarinnar til að taka atvinnuviðtöl, halda starfsmannafundi eða skipuleggja fræðsluerindi svo dæmi séu tekin.
Breki er eini ráðgjafi NPA miðstöðvarinnar sem stendur og er með fasta viðveru á skrifstofunni á Akureyri. Helsta hlutverkið segir hann vera að veita félagsfólki NPA miðstöðvarinnar á Norðurlandi og Vestfjörðumlandi ráðgjöf, sem og aðstoðarfólki þess, auk þess að byggja starfsemi skrifstofunnar á Norðurlandi upp.
Góð viðbrögð
„Við hlökkum til að styrkja enn frekar sambandið við okkar félagsfólk á landsbyggðinni og geta nú verið til staðar fyrir fatlað fólk á svæðinu sem áhuga hefur fyrir því að fræða meira um NPA og fá ráðgjöfum um allt sem því viðkemur,“ segir Breki. „Viðbrögðin við opnun útibúsins hafa verið mjög góð. Fólk er ánægt með það að við erum nú að veita okkar félagsfólki meiri nærþjónustu. Ég finn líka mikla ánægju meðal aðstoðarfólks að hafa nú aðgang að ráðgjafa sem staðsettur er á Akureyri,“ segir Breki en auk þess sem hann þjónustar félagsfólk á Norðurlandi hefur hann einnig verið ráðgjafi tveggja félagsmanna á Vesturlandi.
Um 70 félagar eru hjá NPA miðstöðinni í heild auk þess sem aðstoðarmanneskjur er um 350 talsins. Á Norðurlandi eru félagar sjö talsins auk þeirra tveggja sem eru fyrir Vestan. „Það er að mörgu að huga þegar að þessum málaflokki kemur. Við erum að vinna í að gera þjónustuna og umsóknarferlið aðgengilegra. Sem stendur er óvissa ríkjandi um hvernig fólk raðast á biðlista eftir NPA, hvenær þjónustan getur hafist og hverjir eiga rétt á henni,“ segir Breki.
Samningar ekki nægileg vel fjármagnaðir
Þá nefnir hann að mjög brenni á notendur að þjónustan er ekki nægilega vel fjármögnuð. Sveitarfélög verði að fá aukinn stuðning frá ríkinu til að gera sinnt þjónustunni. „Það þarf líka að skerpa á margvíslegum þáttum þjónustunnar í reglugerðinni, t.d. varðandi greiðslu sveitarfélaga og útfærslur varðandi viðbótarframlög til samningar, t.d. þegar aðstoðarfólk er veikt eða annar viðbótarkostnaður skapast,“ bætir hann við.
Breki segir einnig að auka þurfi aðhald með sveitarfélögum varðandi gæðamál, þannig að öll málsmeðferð og matsferlar hjá sveitarfélögum séu réttir og að aðilar sem starfa í NPA séu að gera það eftir hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf sem NPA byggir á.
Hvað er NPA?
Notendastýrð persónulega aðstoð (NPA) er þjónustuform sem byggir á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf og gerir fötluðu fólki kleift að ráða hvar það býr og með hverjum það býr. Fatlað fólk stýrir því hvernig aðstoðin er skipulögð, hvað aðstoð er veitt við, hvenær hún fer fram, hvar hún fer fram og hver veitir hana.
Markmið NPA er að fatlað fólk geti lifað lífi sínu og haft sömu möguleika og ófatlað fólk. Einnig að hafa hámarks stjórn á því að móta sinn eiginn lífsstíl.