Bakþankar bæjarfulltrúa - Upplifun
Hvaða tilfinningu viljum við hafa fyrir bænum okkar? Hverju erum við tilbúinn að fórna í þjónustu við allt um lykjandi stefnu nútímans um þéttingu byggðar? Er ásættanlegt að jafnvel gjörbreyta ásýnd einstakra hverfa svo koma megi þar fyrir fleiri íbúðum? Og hvað um herfræðina gegn einkabílnum sem byggir á þeirri fyrir fram gefnu forsendu að mikilvægi hans í daglegu lífi borgarans fari senn mjög þverrandi?
Það eru eilíf mótmæli ef gera á eitthvað, segja forsjármenn skipulagsins. Og fara ekki með eintómt fleipur. Nyrðri húsunum við Austurbrú var mótmælt. Syðri ekki því þá voru menn sprungnir á limminu (að minnsta kosti ég) og töldu gagnslaust að tala gegn þeim byggingum. Gagnrýndar eru fyrirhugaðar framkvæmdir við Lund á Brekkunni, Hvannavelli á Eyrinni og Lyngholt í Þorpinu. Hins vegar sagði enginn orð þegar húsin risu við Hafnarstræti 31, Eyrarlandsveg 31, já og heldur ekki gegn hótelbreytingunum við gömlu Skjaldborg (Hafnarstræti 67) og þar norður af. Ástæðan er einföld. Sýndu því virðingu sem fyrir er og þá eru mun meiri líkur á því að allir gangi sáttir frá borði.
Tjaldsvæðishugmyndir skipulagsins eru líka mörgum þyrnir í augum. Meðal annars fyrir þá sök að þar á að rísa hábyggð eyja bygginga, afmörkuð bílastæðum á þrjá vegu, með fram Þórunnarstræti, Hrafnagilsstræti og Byggðavegi. Þetta er hugmyndafræði Hagahverfis þar sem bílastæði fjölbýlishúsanna renna svo gott sem saman við umferðargöturnar í kring. Þetta er vond hugmynd sem í framkvæmd á eftir að stinga illa í stúf við hverfið. Ég óttast að svipuð örlög bíði íþróttavallarins við Hólabraut.
Ég spyr því aftur, hvernig viljum við upplifa bæinn okkar? Eigum við að raða í hann byggingum sem þéttast og segja við börn okkar og barnabörn: Vissulega er afbragð að eiga fína útivistargarða í miðbænum eins og til dæmis íbúar Kaupmannahafnar og Stokkhólms, Londonar og New York, en við Akureyringar höfum ekki efni á slíkum munaði. Hér er land dýrt og af skornum skammti. Þess utan eigum við slík útivistarsvæði í útjaðri bæjarins. Þau ættu að duga.
Jón Hjaltason
Óháður