Milljónatjón í óveðri í byrjun febrúar

Milljónatjón í óveðrinu í byrjun febrúar    Mynd no.is
Milljónatjón í óveðrinu í byrjun febrúar Mynd no.is

Óveður sem gekk yfir dagana 5. og 6. febrúar olli miklum skemmdum og hleypur tjón á milljónum þó heildartala hafi ekki verið tekin saman. Fyrir liggur að hefja lagfæringar og einnig að grípa til aðgerða svo koma megi í veg fyrir að sambærilegt tjón verði í framtíðinni.

Einkum urðu miklar skemmdir á svæði í kringum Krókeyri og gömlu gróðurstöðina, þar sem vegur rofnaði við hitaveiturör ofan við Krókeyri að því er fram kemur í minnisblað þar sem teknar eru saman þær skemmdir sem urðu í óveðrinu í byrjun febrúar.

Vinnan var ekki kláruð

Mikið vatn flæddi frá Teiga-, Nausta- og Hagahverfi, auk þess sem vatn kom úr hærri lögum svæðisins. Við skoðun á rörum og skurðum, sem eiga að leiða vatn frá þessum svæðum, kom í ljós að þau eru of grönn og ná ekki að leiða vatnið eðlilega til sjávar. Árið 2016 vann Elfa verkfræðistofa skýrslu þar sem bent var á að með uppbyggingu Haga- og Naustahverfis væri nauðsynlegt að endurskoða vatnsleiðir á svæðinu. Sú vinna var hins vegar ekki kláruð. Í kjölfar óveðursins var haldinn fundur með Norðurorku um að ljúka þessari vinnu, og sú vinna er þegar hafin.

Ekki vilji hjá Norðurorku að sjá um vatnsrásir

Umhverfis- og mannvirkjaráð sem ber ábyrgð á að fylgjast með og viðhalda opnum vatnsrásum leggur til að fjármagn verði veitt í þau verkefni. Fram kemur í minnisblaði að ekki hafi verið vilji til þess af hálfu Norðurorku að sjá um vatnsrásirnar þrátt fyrir að þær séu hluti af regnvatnskerfi fráveitunnar og flytji vatnið í viðtaka, þ.e. Eyjafjörð.

Talsverðar skemmdir urðu á stígum og ræsum og er viðgerð hafin. Þá má nefna að umtalsverðar skemmdir urðu í Lystigarðinum m.a. á stígum og trjágróðri.

Umhverfis- og mannvirkjaráð hefur falið formanni ráðsins og sviðsstjóra að hefja viðræður við Norðurorku um að skýra verkaskiptingu milli Akureyrarbæjar og Norðurorku hvað varðar fráveitu. „Ljóst er að fara þarf í verulegar endurbætur á kerfinu til að tryggja að tjón endurtaki sig ekki,“ segir í bókun ráðsins.

 

Nýjast