Þarf að vinna í samböndum?
Parsambönd eru merkileg, ólíkar manneskjur með ólíkan bakgrunn, áhugamál, skoðanir og tilfinningar finna merkingu í einhverju sameiginlegu og ákveða að eyða lífinu saman. Þó það sé ekki alltaf svo að parsamband endist lífið á enda þá einhvers staðar í byrjun sambandsins myndast rót og hugmyndir að framtíðarsýn. Framtíð sem inniheldur þessa nýju og spennandi manneskju. Parsambönd geta verið falleg, heilbrigð og uppbyggileg. Þau geta hins vegar líka verð erfið, stormasöm og leiðinleg. Það er eðlilegt að fólk í parsamböndum upplifi hvoru tveggja, fegurð og erfiðleika. Það er ekki endilega annað hvort eða. Í erfiðleikum getur falist tækifæri til þess að vinna saman í lausnaleit, ná dýpri tengingu og hlúa að því sem skiptir máli.
Meiri hluti ágreiningsmála í parsamböndum eru á þann veginn að ekki er ein leið eða útkoma. Fó lk getur haft misjafnar skoðanir en samt átt í hamingjusömu sambandi, útkoman veltur á getu pars til þess að vera sammála um að vera ósammála eða þá tengingu sem skapast þegar þau geta hlustað og sett sig í spor hvers annars án þess endilega að vera sammála. En það eru oft þessi flóknu ágreiningsmál sem valda usla og neikvæðni í parsamböndum. Pör bíða að meðaltali í sex ár með að leita sér faglegrar aðstoðar og helmingur hjónabanda sem enda gera það á fyrstu sjö árunum. Sex ár eru langur tími til þess að láta hugmyndir, hugsanir og tilfinningar malla óáreittar. Samskiptamynstur breytist og með tímanum kemur upp ágreiningur sem verður þess valdandi að par ákveður að nú sé tími til þess að fá aðstoð fagaðila. En málið er að því fyrr sem pör koma því betra.
Samskiptavandi getur virkað eins og snjóbolti sem rúllar niður brekku, því lengur sem boltinn rúllar því meiri snjór kemur á hann og hann stækkar og verðum meira yfirþyrmandi með hverri veltu. Hvort sem vandamálið er stórt eða lítið er betra að fá aðstoð fyrr en seinna. Pararáðgjöf gengur að miklu leyti út á það að fella múra sem fólk hefur byggt upp. Þessir múrar eru oft rótgrónir og spila stóran þátt í samskiptamynstri para. Þegar pör hafa lengi átt í erfiðleikum með að ræða krefjandi, óþægilega eða erfiða hluti verða þessir múrar til. Það er fátt jafn gefandi og nærandi í sambandi eins og að útskýra flóknar tilfinningar eða upplifun með orðum og finna að maki skilur. Þetta er ákveðin kúnst sem pör þurfa oft á tíðum að æfa sig í til þess að verða betri, eins og að þjálfa vöðva til þess að styrkja þá eða þol til þess að geta hlaupið lengur í einu. Það er óumflýjanlegt að á einhverjum tímapunkti í sambandi komi upp ágreiningur. Að baki rifrildis leynist umræðuefni sem annar hvor aðilinn í parsambandinu taldi þörf á að ræða.
Hæfileiki pars til þess að vinna í ágreiningsmálum getur haft mikil áhrif á gæði sambandsins. Í heilbrigðum samböndum fara fram heilbrigð ágreiningsmál, málin rædd með virðingu, vinsemd og hlustun að leiðarljósi. Það er mikilvægt að báðir aðilar fái að tjá sína skoðun, en í pararáðgjöf skapast rými fyrir þess konar samtal. Í pararáðgjöf læra pör að hlusta og skilja hvort annað, að ræða hluti málefnalega og af virðingu. Pararáðgjöf getur hjálpað einstaklingum að kortleggja samskiptamynstur, rífa ofan af gömlu og neikvæðu mynstri, aukið jákvæð samskipti og fært pör nær hvoru öðru. Það er mikilvægt að pör læri að takast á við átök og búi til hjálplegar leiðir til þess að standa með maka sínum, fái innsýn inn í framtíðarsýn, drauma og þrá hvers annars og umfram allt rækti vináttu sína svo parsambandið nái að blómstra til lengri tíma.
Nokkar hugmyndir til þess að hlúa að parsambandinu: -
Litlu hlutirnir skipta máli, hér eru nokkur dæmi: -
Kyssa maka sinn í upphafi og enda dags -
Knúsast, helst á hverjum degi -
Elda kvöldmat saman amk tvisvar í viku -
Segja takk við hvert tækifæri -
Senda falleg skilaboð til maka af fyrra bragði -
Ef þú sérð að maki þinn er að sinna heimilisstörfum, taktu þátt ef þú getur og þá eruð þið búin fyrr -
Að spyrja maka þinn reglulega hvernig dagurinn var -
Forvitni, prófið að spyrja hvort annað opinna spurninga og gefið ykkur tíma í að hlusta: -
Hvað var það við mig sem þú laðaðist að í byrjun sambandsins? -
Hver er uppáhalds minningin þín af okkur? -
Hvernig liti draumafríið þitt út? -
Það getur verið bæði gott og gefandi að ræða framtíðina, langanir og þrár reglulega við maka sinn
Höfundur greinarinnar er Elísabet Ýrr Steinarsdóttir fjölskyldufræðingur hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni.
Hægt er að bóka viðtöl hjá henni í gegnum Noona eða Hafa samband. https://www.heilsaogsal.is/hafa-samband