Haltu kjafti!

Dýrleif Skjóldal skrifar
Dýrleif Skjóldal skrifar

Þegar kona neitar að þegja og vera sæt þá finnur veröldin leið til þess að segja henni að halda kjafti. Til þess var notaður félagsdómur sem úrskurðaði verkfallið ólöglegt (3 á móti 2).Þegar kona fær þau skilaboð verkar það algjörlega öfugt á hana. Í sorg, reiði og vanmætti sínum ákveður hún að standa keik í svörtum sorgarklæðum, í vinnu sinni daginn eftir og alla daga þar til samið verður við okkur. Hún fær aðra í lið með sér, því öðrum kennurum líður eins.

Þessi dómur er viðsnúningur, ekki bara vegna þess að flest öll verkföllin voru gerð ólögleg en líka vegna þess að hann vekur upp nokkrar spurningar. Í úrskurði félagsdóms, sem ekki er hægt að áfrýja, segir að sveitarfélagið sé atvinnurekandinn en ekki leikskólinn, sem þýðir þá væntanlega að leikskólar eru ekki stórar stofnanir. Það þýðir þá væntanlega að skólastjórar og aðstoðarskólastjórar verða undanskildir verkfallsbanni. Sem þýðir þá líka að enginn yfirmaður getur stýrt skólanum og því verða deildir með mikið af ófaglærðu fólki líka að loka í næsta verkfalli, sem a.ö.l. verður fljótlega.

Sveitarfélagið getur ekki lengur gert ,,okkur upp” þegar við færum starfsstöð okkar milli skóla innan sama sveitarfélags.

En fyrst og fremst vekur þessi dómur upp vissuna fyrir því að virðingin fyrir okkar starfi er lítil sem engin hjá ATVINNUREKENDUM OKKAR.

Það gerir konu bæði sára og reiða.

Það eru gömul sannindi og ný, að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur!

Dilla

 

Nýjast