Uppbygging 5 fjölbýlishúsa við Miðholt
Skipulagsráð Akureyrar tekur jákvætt í tillögu sem fyrir liggur varðandi uppbyggingu á lóðum við Miðholt 1 til 9 en umrædd tillaga er fram sett til að koma til móts við athugasemdir sem bárust og ótta við aukna umferð um götuna. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að inn- og útkeyrsla úr bílakjallara verði frá Langholti en ekki um Miðholt.
Skipulagsfulltrúa hefur verið falið að kynna breytingu á aðalskipulagi sem er í þá átt að á svæðinu sé leyfi fyrir fimm þriggja hæða fjölbýlishúsum. Fyrri samþykkt á skipulagi heimilaði byggingu tveggja hæða húsa við Miðholt.
Athugasemdir bárust frá íbúum við Miðholt og Stafholt vegna breyttra áforma um byggingarnar, fleiri íbúðir og aukna umferð. Í skipulagi var ekki leyfi fyrir bílakjallara og öll bílastæði voru ofanjarðar og með aðkomu frá Miðholti.
Minna ónæði og aukið umferðaröryggi
Breyting felur í sér að byggingarmagn er aukið frá því sem áður var, húsin eru þrjár hæðir i stað tveggja áður og einnig er nú leyfi fyrir niðurgröfnum kjallara með innakstri frá Langholti. Þar er gert ráð fyrir 50 bílastæðum. „Mun sú úrlausn að ekið sé inn í bílakjallarann frá Langholti verða til þess að draga mjög úr umferð sem annars færi um Miðholt, ásamt því að auka umferðaröryggi á götunni. Gera má ráð fyrir mun minna ónæði af umferð við Miðholt af þeim 54 íbúðum sem áætlaðar eru í tillögunni í samanburði við þær 30 íbúðir sem leyfðar eru í núverandi skipulagi,“ segir í tillögu að breytingu á deiliskipulagi við Miðholt.