Fullt út úr dyrum fyrstu helgina

Haukur Ákason og Hrólfur Jón Flosason. Mynd/aðsend
Haukur Ákason og Hrólfur Jón Flosason. Mynd/aðsend

640 Veitingar ehf. hafa skrifað undir samning við Golfklúbb Húsavíkur um leigu og rekstur veitingasölu í Golfskálanum. Það eru þeir félagarnir Haukur Ákason og Hrólfur Jón Flosason sem standa á bak við reksturinn. Þeir ætla sér að bjóða upp á hádegismat, alla virka daga vikunnar og utan þess og um helgar verða þeir einnig með léttan matseðil. Einnig munu þeir bjóða upp á veisluþjónustu og salarleigu í Golfskálanum.

Blaðamaður Vikublaðsins heyrði í Hrólfi á dögunum og hann gaf sér nokkrar mínútur til að ræða nýja staðinn. Formleg opnun veitingastaðarins, Golfskálinn veitingar var á laugardag og segist Hrólfur vera ánægður með góða byrjun.

„Við vorum bara að opna á laugardag ég og Haukur. Þetta var mjög gott start, og við vorum mjög ánægðir með bæði laugardag og sunnudag. Þá hófum við einnig að bjóða upp á heitan hádegismat frá mánudegi. Það hefur verið ágætis traffík í það, og við erum að reyna að stíla inn á að hafa heitan hádegismat alla virka daga frá 11:45 til 13:15, með góðum heimilismat,“ útskýrir Hrólfur og bætir við að hann sé bjartsýnn á að Húsavíkingar og gestir bæjarins muni taka staðnum vel.

Fótboltinn trekkir að

Hrólfur segir að það sé varla hægt að hugsa sér betri byrjun á miðjum vetri og hádegismatseðillinn lofi góðu. Þá séu íþróttaviðburðir sýndir á stórskerm og miðað við aðsóknina fyrstu helgina sé augljóst að Húsavíkingar hafi verið að bíða eftir þessari þjónustu. „Við erum með léttan bistro matseðil með fótboltanum til 21 á kvöldin alla daga og erum að sýna helstu leiki í enska boltanum og meistaradeildinni. Það hefur farið mjög vel af stað hjá okkur. Fyrstu helgina var fullt út úr dyrum þegar við sýndum leiki Liverpool og Arsenal, og stemningin var sturluð. Ekki spillir fyrir að fá ódýran bjór á krana með leiknum,“ segir Hrólfur.

Pantanir byrjaðar að berast í veisluþjónustu

Hrólfur og Haukur ætla ekki bara að standa vaktina í sal veitingastaðarins en þeir munu bjóða upp á veisluþjónustu fyrir ýmiskonar tækifæri. „Já, það er einnig hluti af planinu. Við ætlum að reyna fyrir okkur á þeim markaði og gera það vel. Það er erfitt að verða ríkur af því að selja bara hádegismat á 2690 krónur, og dýrasti rétturinn á matseðlinum er undir 3000 krónum. Þess vegna ætlum við að bjóða upp á veisluþjónustu út úr húsi líka,“ segir Hrólfur og bætir við að þeir taki að sér allar mögulegar veislur.

„Við höfum þegar verið með erfidrykkju og tökum að okkur allar tegundir af veislum út úr húsi. Þetta getur þó orðið aðeins erfiðara á sumrin þegar mikið er að gera í salnum, og það er ekki alltaf gerlegt að vera með stórar veislur út úr húsi þegar við þurfum báðir að vera á veitingastaðnum. Við ætlum að sjá hvað við getum annað hvað það varðar, og við tökum bara að okkur það sem við getum gert vel,“ segir hann.

Villbráðin blífur

Haukur og Hrólfur eru báðir þaulvanir í hótel- og veitingabransanum og verið vinsælir matreiðslumenn þar sem þeir hafa komið við. „Ég hef meðal annars staðið fyrir villibráðarhlaðborðum á Fosshótel Húsavík þar sem ég var yfirkokkur í mörg ár en þau voru mjög vinsæl,“ segir Hrólfur en þar er hann heldur hógvær því villbráðarhlaðborðin hans hafa verið meðal þeirra vinsælustu á landinu og seljast alltaf hratt upp. Hróður þeirra hefur farið víða og mikið af aðkomufólki sem hefur lagt leið sína til Húsavíkur til að upplifa villbráðarveislur hans.

Það liggur því beinast við að spyrja Hrólf hvort villbráðarhlaðborðin hans tilheyri fortíðinni eða mun Golfskálinn taka við hefðinni?

„Það er mjög líklegt að við setjum upp að minnsta kosti eina helgi með villibráð í haust, ef ég kemst að skjóta eitthvað. Það er öruggt að við skellum í eina slíka veislu og svo sjáum við til hvort það verði eitthvað meira,“ segir Hrólfur og hlær.

„Það er mikið spennandi framundan hjá okkur og við erum mjög spenntir fyrir því sem við höfum verið að byggja upp. Við vonum að fólk taki vel í það sem við höfum að bjóða og við ætlum að gera okkar besta til að standa undir væntingum,“ segir Hrólfur að lokum.

Greinin birtist fyrst í prentútgáfu Vikublaðsins.

Nýjast